Körfubolti

Hill mætir Tindastóli: Þið viljið ekki missa af þessu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jerome Hill í leiknum í kvöld.
Jerome Hill í leiknum í kvöld. Vísir/Vilhelm
Það kom í ljós í kvöld að Keflavík mun mæta Tindastóli í 8-liða úrslitum úrslitakeppni Domino's-deildar karla.

Jerome Hill, miðherji Keflavíkur, hóf tímabilið með Tindastóli en var sagt upp þar. Stuttu síðar samdi hann við Keflavík, sem tapaði fyrir Stjörnunni í spennandi leik í kvöld.

„Við spiluðum góða vörn en þetta var bara ekki nóg. Við þurftum meira í lokin,“ sagði Hill eftir leikinn en hann var eðlilega svekktur með frammistöðu kvöldsins en Keflavík missti þar með af öðru sæti deildarinnar.

Sjá einnig: Þungu fargi af mér létt að vera farinn frá Tindastóli

„En ég hrósa þeim. Coleman spilaði frábæra vörn og þó svo að Shouse sé lítill þá er hann út um allt. Ég tek hatt minn ofan fyrir þeim.“

Hann segir að þrátt fyrir tapið sé Keflavík vel stemmt fyrir úrslitakeppninni og á góðum stað. Hill fagnaði því sérstaklega vel að fá Tindastól í 8-liða úrslitunum.

„Við viljum fá annan leik gegn þeim. Við spiluðum illa gegn þeim í fyrri hálfleik síðast þegar við mættumst en það sáu allir hvað við gátum í seinni hálfleik. Ég held að við getum unnið þá.“

Sjá einnig: Hér er ástæða þess að Stólarnir sakna Jerome Hill ekki neitt

„Þegar ég heyrði að við fengum Tindastól þá fór um mig. Ég er orðinn heitur bara af því að hugsa um þetta. Líka svolítið reiður. Ég vil vinna þá - mikið.“

Hann segir að honum þyki vænt um Tindastól - alla leikmenn og formanninn. Ekki síst stuðningsmennina. En honum samdi ekki vel við þjálfarann Jou Costa.

„Eins og ég hef áður sagt þá var ég bara fastur í kassa. Ég er viss um að það sjá allir hvernig ég er að spila núna. Það er léttara yfir mér. Ég er leikmaðurinn sem ég vill vera.“

„En þjálfarinn, maður. Það var illt á milli okkar. En þetta verður gaman. Þið viljið ekki missa af þessu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×