Körfubolti

Viltu eignast metboltann hans Shouse? | Allur ágóðinn rennur til Langveikra barna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Justin Shouse er stoðsendingakóngur úrvalsdeildarinnar.
Justin Shouse er stoðsendingakóngur úrvalsdeildarinnar. vísir
Justin Shouse, leikstjórnandi Stjörnunnar í Dominos-deild karla í körfubolta, bætti stoðsendingametið í úrvalsdeildinni fyrr í vetur þegar hann gaf stoðsendingu númer 1.394 í leik á móti Grindavík.

Boltinn hefur verið geymdur í myndveri sjónvarpsþáttarins Dominos-Körfuboltakvölds frá því í 16. umferð þegar Shouse bætti metið, en nú verður hann boðinn upp og ágóðinn rennur allur til góðs málefnis.

„Síðast sá ég þennan bolta ekki í bestu kringumstæðunum eftir tap gegn Grindavík en afrekið var æðislegt fyrir mig og alla samherja mína og þjálfara á mínum ferli hér á Íslandi. Þetta hefur verið frábær ferð. Ég elska hvað þessi bolti táknar núna og að hann verði boðinn upp fyrir gott málefni“ segir Justin í samtali við Vísi.

Shouse fékk sjálfur að velja hvað málefni nyti góðs af ágóðanum sem fæst fyrir boltann. Það eru Langveik börn sem fá allt sem safnast í uppboðinu.

„Ég vinn í Alþjóðaskóla Íslands í Garðabæ þannig ég er í kringum börn allan daginn. Maður finnur til með börnum sem eru langveik, en við höfum verið með nokkur börn sem hafa átt í erfiðleikum með heilsuna í gegnum tíðina. Við ætlum því að leggja málefninu Langveik börn lið,“ segir Justin.

Tilkynnt var um leið og Justin bætti metið að boltinn yrði á endanum boðið upp. Ónafngreindur aðili er búinn að hafa samband við Vísi og bjóða 100 þúsund krónur. Þeir sem vilja eignast boltann og styrkja langveik börn þurfa því að gera betur en það.

„Það er ótrúlegt að heyra þetta. Þegar þetta var kynnt fyrir mér hafði ég ekki hugmynd um hversu miklu væri hægt að safna. Allur peningur væri frábær en að heyra 100 þúsund krónur kemur skemmtilega á óvart,“ segir Justin.

„Til viðbótar við það ætla tveir bestu vinir mínir úr Stykkishólmi; Sveinn Davíðsson og Arnþór Pálsson, að gefa hæstbjóðanda 5.000 kr. gjafabréf á veitingastaðinn Skúrinn í Stykkishólmi,“ segir Justin Shouse.

Úrslitin úr uppboðinu verða kunngjörð eftir leik Stjörnunnar og Njarðvíkur í úrslitakeppninni á föstudaginn, en Dominos-Körfuboltakvöld verður í beinni útsendingu frá Ásgarði. Ætlar Justin að sjá boltann aftur eftir tapleik?

„Við búumst við að vinna leikinn. Við unnum allt tímabilið fyrir heimavallarrétti. Njarðvíkurliðið er gott og við vitum að heimavöllurinn á eftir að skipta máli. Okkur hlakkar til að fá stuðningsmennina okkar á fullt í Ásgarði og gefa okkur alla í þetta. Vonandi verða það svo strákarnir í bláu sem hafa betur,“ segir Justin Shouse.

Þeir sem vilja leggja málefninu lið og eignast þennan sögulega bolta geta sent póst á korfuboltakvold@stod2.is.


Tengdar fréttir

Næstu tvær stoðsendingar hjá Justin verða sögulegar

Stoðsendingamet Jóns Arnars Ingvarssonar fellur að öllum líkindum í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport í kvöld þegar Stjörnumenn heimsækja Grindvíkinga í Röstina í Domino's-deild karla í körfubolta. Justin Shouse, leikstjórnandi Stjörnunnar stendur á tímamótum á tíunda tímabili sínu í úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×