Körfubolti

Hæsta boð í metboltann 150.000 | Allur ágóðinn rennur til Langveikra barna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dominos-Körfuboltakvöld, Vísir og Justin Shouse, leikstjórnandi Stjörnunnar í Dominos-deild karla í körfubolta, standa að söfnun fyrir Langveik börn.

Justin bætti stoðsendingametið í úrvalsdeildinni fyrr í vetur þegar hann gaf stoðsendingu númer 1.394 í leik á móti Grindavík. Hann áritaði boltann sem hefur síðan verið til sýnis í myndveri Dominos-Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport.

Uppboð á boltanum hófst síðastliðinn föstudag og stendur hæsta tilboð í 150.000 krónum. Justin fékk sjálfur að velja sér málefni til að styrkja og rennur allur ágóðinn til Langveikra barna.

Uppboðinu lýkur á föstudaginn en hæsta tilboð verður gert opinbert í fyrstu útsendingu Dominos-Körfuboltakvölds frá úrslitakeppninni þar sem Stjarnan og Njarðvík mætast í Ásgarði.

Sá einstaklingur sem vill eignast þennan sögulega bolta og styrkja gott málefni um leið þarf að bjóða betur en 150.000 krónur. Tilboð sendist á korfuboltakvold@stod2.is.

Hér að ofan má sjá viðtal við Justin um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×