Fótbolti

Atlético áfram eftir sextán vítaspyrnur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Antoine Griezman, leikmaður Atlético, með boltann í kvöld.
Antoine Griezman, leikmaður Atlético, með boltann í kvöld. vísir/getty
Atlético Madrid komst í kvöld áfram í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir að leggja PSV Eindhoven frá Hollandi á heimavelli sínum í vítaspyrnukeppni.

Fyrri leik liðanna lauk með markalausu jafntefli og sú var einnig staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem ekkert er skorað í hvorugum leiknum í einvígi í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Atlético var betra liðið í kvöld og skaut og skaut að marki gestanna en fékk ekki mikið af alvöru færum. Gestirnir frá Eindhoven voru mjög skipulagðir og vörðust vel og komu heimamönnum nokkuð á óvart.

Skorað var úr fyrstu fjórtán vítaspyrnum kvöldsins eða þar til Luciano Narsingh skaut í slána fyrir PSV. Jeroen Zoet, markvörður gestanna, var þó ansi nálægt því að verja nokkrar spyrnur Atlético-manna.

Spænski bakvörðurinn Juanfran var maðurinn sem skaut Atlético áfram þegar hann skoraði úr áttundu spyrnu heimamanna í röð, 8-7.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×