Ballett alþýðunnar Stefán Pálsson skrifar 6. mars 2016 11:00 Fótbolti sleit barnsskónum á Íslandi á öðrum áratug síðustu aldar. Melavöllurinn var tekinn í notkun sumarið 1911 og árið eftir var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í fyrsta sinn. Í fásinninu í Reykjavík tók fólk allri afþreyingu fegins hendi og bæjarbúar mættu í stórum hópum á völlinn í hvert sinn sem færi gafst. Á þessum upphafsárum var sóknarboltinn alls ráðandi og algengasta leikaðferðin var 2-3-5, þar sem fimm sóknarmenn herjuðu á aðeins tvo varnarmenn. Það kann að virðast ójafn leikur, en á hitt ber að líta að framherjarnir léku knettinum nær einungis fram á við og sendu sjaldan á samherja. Því gat fáliðuð varnarsveit haldið þeim ágætlega í skefjum. Þetta upphafsskeið fótboltans gat vitaskuld af sér stjörnur – leikmenn sem voru í sérstöku eftirlæti meðal áhorfenda og fljótlega tók að bera á því að áhorfendur tækju afstöðu með öðru hvoru liðinu – urðu jafnvel stuðningsmenn KR, Fram eða Vals. Ein fyrsta og skærasta stjarnan var Arreboe Clausen.Þekktur fyrir þrumuskot Vinsældir Arreboes eru óvenjulegar í ljósi þess að hann var ekki marksækinn framherji heldur harðsnúinn varnarmaður. Einkennismerki hans voru Clausen-spörkin svokölluðu, sem fólust í því að þruma boltanum eitthvað út í buskann – helst beint útaf með hárri og mikilli sveiflu. Því hærra og fastar sem skotið var, þeim mun betur skemmtu áhorfendur sér og fögnuðu innilega. Arreboe Clausen er nú um stundir líklega kunnastur sem faðir íþróttabræðranna Hauks og Arnar Clausen, sem lengi voru okkar fremstu frjálsíþróttagarpar. Þvert á staðalmyndina af varnarjaxlinum, var Arreboe listfengur maður. Hann var áhugalistmálari og lék á hljóðfæri. Eftir hann liggja í það minnsta tvö tónverk sem tengjast fótbolta með beinum hætti. Annars vegar „Framvalsinn“, sem hann samdi ásamt eiginkonu sinni, Sesselju, á 25 ára afmæli Fram, en hins vegar „Knattspyrnumarsinn“ sem ef til vill var saminn fyrir árvissa skrúðgöngu fótboltamanna frá Austurvelli á Melavöll við upphaf Íslandsmótsins. Tónverk þessi koma Arreboe í fámennan en góðmennan hóp tónskálda sem fengið hafa innblástur frá fótbolta í list sinni. Þar má nefna Englendinginn Sir Edward Elgar, sem var gallharður stuðningsmaður Wolverhampton Wanderers og samdi verk til heiðurs framherja liðsins árið 1898. Hálfri öld síðar vakti tékkneska tónskáldið Bohuslav Martinu bæði hrifningu og hneykslan með verki sínu „Hálfleikur“, sem reynir að líkja eftir hvatningarópum og köllum fótboltaáhorfenda. Í enn sérkennilegri deildinni mætti nefna verk eftir Finnann Osmo Tapia Räihälä sem helguð eru Everton-liðinu og þá sérstaklega eftirlætisleikmanni hans, hörkutólinu Duncan Ferguson. Eitt er þó það tónskáld í hópi fótboltaunnenda sem slær öllum öðrum við í frægð og vinsældum: Rússinn Dímítríj Sjostakovítsj.Á leið í gúlagið? Sjostakovítsj er eitt af stóru nöfnunum í sögu klassískrar tónlistar á tuttugustu öld og risinn meðal sovéskra tónskálda. Saga hans er líka samtvinnuð stjórnmálasögunni, því Sjostakovítsj sveiflaðist milli þess að vera eftirlætistónskáld Stalíns yfir í að falla í algjöra ónáð. Það gat verið stutt á milli hláturs og gráts undir stjórn einræðisherrans duttlungafulla. Sjostakovítsj var undrabarn á tónlistarsviðinu. Hann fæddist árið 1906, sonur raunvísindamanns sem starfaði meðal annars hjá Dímítríj Mendelejev, höfundi lotukerfisins í efnafræði. Þrettán ára hóf hann nám við fremsta tónlistarskóla St. Pétursborgar og útskrifaðist nítján ára. Útskriftarverkið var sinfónía sem vakti svo mikla athygli að innan árs var hún frumflutt í stóru tónleikahúsi í Berlín. Í upphafi fjórða áratugarins fór tónskáldið unga að láta sífellt meira á sér bera og árið 1934 var frumsýnd eftir hann óperan Lafði Makbeð frá Mtsensk eftir samnefndri sögu 19. aldar rithöfundarins Nikolais Leskov. Óperan mæltist mjög vel fyrir, jafnt hjá almennum óperugestum og leiðtogum Kommúnistaflokksins, sem skipti ekki síður miklu máli. En tveimur árum síðar var komið annað hljóð í strokkinn. Hreinsanir Stalíns voru hafnar af miklum móð og dag nokkurn hafði vinur Sjostakovítsj samband við hann og hvatti til að mæta í óperuhúsið á sýningu á Lafði Makbeð. Stalín var þar meðal gesta ásamt nokkrum valdamestu mönnum landsins og þeim virtist ekki skemmt, heldur fylgdust áhugalitlir og geispandi með dramatískustu köflum verksins og hlógu á röngum stöðum. Þegar tónskáldið gekk fram til að hneigja sig að uppfærslunni lokinni var það sannfært um að ekkert biði nema fangabúðirnar eða aftökusveitin.Á vellinum Næstu daga birtust svæsnar skammargreinar í Prövdu um tónlist Sjostakovítsj, sem sögð var úrkynjuð og ruddaleg. Í kjölfarið fundu tónlistargagnrýnendur sem áður höfðu gefið Lafði Makbeð jákvæða dóma sig knúna til að endurskoða umsagnir sínar og benda á að þeim hefðu yfirsést ýmiss konar ágallar á verkinu. Listamaðurinn féll í ónáð og tekjur hans hrundu, en hann var ekki sendur í gúlagið og fékk næstu misserin að sinna tónlistarverkefnum sem talin voru lítilsgildari, svo sem kvikmyndatónlist. Eftir dauða Stalíns átti hann þó eftir að fá uppreist æru og komast til æðstu metorða í menningarelítu Sovétríkjanna. Árin í ónáðinni gat Sjostakovítsj leitað huggunar í helsta áhugamáli sínu fyrir utan tónlistina: fótbolta. Knattspyrnuáhugi Sjostakovítsj var nálega þráhyggjukenndur. Hann átti til að horfa á marga leiki eina og sömu helgina og reyndi að missa ekki af heimaleikjum Leníngrad-liðanna Dynamo og Zenit. Hann varð sér úti um dómararéttindi og hélt dagbækur þar sem hann skráði öll knattspyrnuúrslit með ýmsum upplýsingum um gang leikja, sem og yfirlit yfir öll fótboltaveðmál sín (þar sem bölsýnismaðurinn Sjostakovítsj veðjaði ætíð á tap sinna manna). Brygði eiginkonan sér af bæ, héldu tónskáldinu engin bönd í fótboltaglápinu. Eina slíka helgina endaði hann á að bjóða gjörvöllu Dynamo-liðinu heim til sín í veislu, þar sem hann sá hetjunum sínum fyrir mat og drykk og sá sjálfur um hljóðfærasláttinn í stofunni.Heilbrigð öreigaæska Sjostakovítsj eru eignuð þau ummæli að fótboltinn sé ballett fyrir alþýðuna. Sjálfur gekk hann skrefi lengra með myndlíkinguna árið 1930 þegar hann samdi frægasta tónverk sem gert hefur verið um knattspyrnu: ballettinn Gullöldina. Gullöldin varð roknavinsæll ballett og ratar enn í dag öðru hvoru á fjalir leikhúsa, þótt söguþráðurinn þyki ef til vill nokkuð bernskur í sínum bjarta sósíalrealisma. Verkið fjallar um knattspyrnulið frá Sovétríkjunum, skipað vöskum og ungum íþróttamönnum, á keppnisferðalagi í ótilgreindri vestur-evrópskri stórborg, sem minnir þó um margt á Berlín. Hjartahreinu Sovétmennirnir keppa við heimamennina og vegnar vel, en óvinurinn leynist í hverju horni. Tónskáldið teflir fram andstæðunum: hreinni og þjóðlegri tónlist og dansi íþróttamannanna, en spilltri og trylltri vestrænni dægurtónlist hins vegar. Viðsjárverðir útlendingarnir dansa can-can og hlusta á djass og í þeim hópi eru gallagripir á borð við skuggalega blökkumanninn, andbyltingarsinnann og hina siðlausu Dívu sem verður ástfangin af fyrirliða sovéska liðsins. Illir kapítalistar, sílspikaðir og svælandi vindla, reyna að múta kommúnistunum ungu til að tapa viljandi, en þegar það mistekst er liðinu varpað í fangelsi. Gálginn bíður, en verkalýðurinn í borginni sem hrifist hefur af snilli og mannkostum gestanna rís upp og frelsar knattspyrnumennina með byltingu. Sjáið bara fyrir ykkur lokaatriðið í Rocky 4, nema undir öfugum formerkjum. Gullöldinni lýkur á sigurdansi íþróttamanna og frjáls verkafólks á götum stórborgarinnar og boðskapurinn hefði vart mátt skýrari vera. Hitt er annað mál að tónlistarfræðingar hafa bent á að kaflarnir sem sýna áttu þjóðhollustu verkalýðsæskunnar séu frekar flatir og tilþrifalitlir, á meðan Sjostakovítsj nái sér best á strik í þeim hlutum sem áttu að skrumskæla spillta og firrta tónlist kapítalistanna. Tónskáldið heillaðist af dökku hliðinni. Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið „Það er enginn séns að reyna alltaf að útskýra sig“ Tónlist „Ég þori alveg að fullyrða að ég er skítsæmileg móðir“ Lífið Hundruðum svekktra tónleikagesta vísað frá Hvalasafninu Lífið Frelsaði húsgögn Brynhildar Lífið Fréttatían: Mannlíf, ferðamenn og Trump Lífið Hafa bæði kvatt sín fyrrverandi og eru alsæl saman Lífið Skellti sér á djammið Lífið Tengdadóttir forsætisráðherra í innsta koppi Loftssystkina Lífið Tengdó hringdi og vildi vita hvort Sunnu Dís hefði í alvöru liðið svona Lífið „Er ekki að fara fram á það lifa lífinu í bómull“ Lífið Fleiri fréttir Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira
Fótbolti sleit barnsskónum á Íslandi á öðrum áratug síðustu aldar. Melavöllurinn var tekinn í notkun sumarið 1911 og árið eftir var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í fyrsta sinn. Í fásinninu í Reykjavík tók fólk allri afþreyingu fegins hendi og bæjarbúar mættu í stórum hópum á völlinn í hvert sinn sem færi gafst. Á þessum upphafsárum var sóknarboltinn alls ráðandi og algengasta leikaðferðin var 2-3-5, þar sem fimm sóknarmenn herjuðu á aðeins tvo varnarmenn. Það kann að virðast ójafn leikur, en á hitt ber að líta að framherjarnir léku knettinum nær einungis fram á við og sendu sjaldan á samherja. Því gat fáliðuð varnarsveit haldið þeim ágætlega í skefjum. Þetta upphafsskeið fótboltans gat vitaskuld af sér stjörnur – leikmenn sem voru í sérstöku eftirlæti meðal áhorfenda og fljótlega tók að bera á því að áhorfendur tækju afstöðu með öðru hvoru liðinu – urðu jafnvel stuðningsmenn KR, Fram eða Vals. Ein fyrsta og skærasta stjarnan var Arreboe Clausen.Þekktur fyrir þrumuskot Vinsældir Arreboes eru óvenjulegar í ljósi þess að hann var ekki marksækinn framherji heldur harðsnúinn varnarmaður. Einkennismerki hans voru Clausen-spörkin svokölluðu, sem fólust í því að þruma boltanum eitthvað út í buskann – helst beint útaf með hárri og mikilli sveiflu. Því hærra og fastar sem skotið var, þeim mun betur skemmtu áhorfendur sér og fögnuðu innilega. Arreboe Clausen er nú um stundir líklega kunnastur sem faðir íþróttabræðranna Hauks og Arnar Clausen, sem lengi voru okkar fremstu frjálsíþróttagarpar. Þvert á staðalmyndina af varnarjaxlinum, var Arreboe listfengur maður. Hann var áhugalistmálari og lék á hljóðfæri. Eftir hann liggja í það minnsta tvö tónverk sem tengjast fótbolta með beinum hætti. Annars vegar „Framvalsinn“, sem hann samdi ásamt eiginkonu sinni, Sesselju, á 25 ára afmæli Fram, en hins vegar „Knattspyrnumarsinn“ sem ef til vill var saminn fyrir árvissa skrúðgöngu fótboltamanna frá Austurvelli á Melavöll við upphaf Íslandsmótsins. Tónverk þessi koma Arreboe í fámennan en góðmennan hóp tónskálda sem fengið hafa innblástur frá fótbolta í list sinni. Þar má nefna Englendinginn Sir Edward Elgar, sem var gallharður stuðningsmaður Wolverhampton Wanderers og samdi verk til heiðurs framherja liðsins árið 1898. Hálfri öld síðar vakti tékkneska tónskáldið Bohuslav Martinu bæði hrifningu og hneykslan með verki sínu „Hálfleikur“, sem reynir að líkja eftir hvatningarópum og köllum fótboltaáhorfenda. Í enn sérkennilegri deildinni mætti nefna verk eftir Finnann Osmo Tapia Räihälä sem helguð eru Everton-liðinu og þá sérstaklega eftirlætisleikmanni hans, hörkutólinu Duncan Ferguson. Eitt er þó það tónskáld í hópi fótboltaunnenda sem slær öllum öðrum við í frægð og vinsældum: Rússinn Dímítríj Sjostakovítsj.Á leið í gúlagið? Sjostakovítsj er eitt af stóru nöfnunum í sögu klassískrar tónlistar á tuttugustu öld og risinn meðal sovéskra tónskálda. Saga hans er líka samtvinnuð stjórnmálasögunni, því Sjostakovítsj sveiflaðist milli þess að vera eftirlætistónskáld Stalíns yfir í að falla í algjöra ónáð. Það gat verið stutt á milli hláturs og gráts undir stjórn einræðisherrans duttlungafulla. Sjostakovítsj var undrabarn á tónlistarsviðinu. Hann fæddist árið 1906, sonur raunvísindamanns sem starfaði meðal annars hjá Dímítríj Mendelejev, höfundi lotukerfisins í efnafræði. Þrettán ára hóf hann nám við fremsta tónlistarskóla St. Pétursborgar og útskrifaðist nítján ára. Útskriftarverkið var sinfónía sem vakti svo mikla athygli að innan árs var hún frumflutt í stóru tónleikahúsi í Berlín. Í upphafi fjórða áratugarins fór tónskáldið unga að láta sífellt meira á sér bera og árið 1934 var frumsýnd eftir hann óperan Lafði Makbeð frá Mtsensk eftir samnefndri sögu 19. aldar rithöfundarins Nikolais Leskov. Óperan mæltist mjög vel fyrir, jafnt hjá almennum óperugestum og leiðtogum Kommúnistaflokksins, sem skipti ekki síður miklu máli. En tveimur árum síðar var komið annað hljóð í strokkinn. Hreinsanir Stalíns voru hafnar af miklum móð og dag nokkurn hafði vinur Sjostakovítsj samband við hann og hvatti til að mæta í óperuhúsið á sýningu á Lafði Makbeð. Stalín var þar meðal gesta ásamt nokkrum valdamestu mönnum landsins og þeim virtist ekki skemmt, heldur fylgdust áhugalitlir og geispandi með dramatískustu köflum verksins og hlógu á röngum stöðum. Þegar tónskáldið gekk fram til að hneigja sig að uppfærslunni lokinni var það sannfært um að ekkert biði nema fangabúðirnar eða aftökusveitin.Á vellinum Næstu daga birtust svæsnar skammargreinar í Prövdu um tónlist Sjostakovítsj, sem sögð var úrkynjuð og ruddaleg. Í kjölfarið fundu tónlistargagnrýnendur sem áður höfðu gefið Lafði Makbeð jákvæða dóma sig knúna til að endurskoða umsagnir sínar og benda á að þeim hefðu yfirsést ýmiss konar ágallar á verkinu. Listamaðurinn féll í ónáð og tekjur hans hrundu, en hann var ekki sendur í gúlagið og fékk næstu misserin að sinna tónlistarverkefnum sem talin voru lítilsgildari, svo sem kvikmyndatónlist. Eftir dauða Stalíns átti hann þó eftir að fá uppreist æru og komast til æðstu metorða í menningarelítu Sovétríkjanna. Árin í ónáðinni gat Sjostakovítsj leitað huggunar í helsta áhugamáli sínu fyrir utan tónlistina: fótbolta. Knattspyrnuáhugi Sjostakovítsj var nálega þráhyggjukenndur. Hann átti til að horfa á marga leiki eina og sömu helgina og reyndi að missa ekki af heimaleikjum Leníngrad-liðanna Dynamo og Zenit. Hann varð sér úti um dómararéttindi og hélt dagbækur þar sem hann skráði öll knattspyrnuúrslit með ýmsum upplýsingum um gang leikja, sem og yfirlit yfir öll fótboltaveðmál sín (þar sem bölsýnismaðurinn Sjostakovítsj veðjaði ætíð á tap sinna manna). Brygði eiginkonan sér af bæ, héldu tónskáldinu engin bönd í fótboltaglápinu. Eina slíka helgina endaði hann á að bjóða gjörvöllu Dynamo-liðinu heim til sín í veislu, þar sem hann sá hetjunum sínum fyrir mat og drykk og sá sjálfur um hljóðfærasláttinn í stofunni.Heilbrigð öreigaæska Sjostakovítsj eru eignuð þau ummæli að fótboltinn sé ballett fyrir alþýðuna. Sjálfur gekk hann skrefi lengra með myndlíkinguna árið 1930 þegar hann samdi frægasta tónverk sem gert hefur verið um knattspyrnu: ballettinn Gullöldina. Gullöldin varð roknavinsæll ballett og ratar enn í dag öðru hvoru á fjalir leikhúsa, þótt söguþráðurinn þyki ef til vill nokkuð bernskur í sínum bjarta sósíalrealisma. Verkið fjallar um knattspyrnulið frá Sovétríkjunum, skipað vöskum og ungum íþróttamönnum, á keppnisferðalagi í ótilgreindri vestur-evrópskri stórborg, sem minnir þó um margt á Berlín. Hjartahreinu Sovétmennirnir keppa við heimamennina og vegnar vel, en óvinurinn leynist í hverju horni. Tónskáldið teflir fram andstæðunum: hreinni og þjóðlegri tónlist og dansi íþróttamannanna, en spilltri og trylltri vestrænni dægurtónlist hins vegar. Viðsjárverðir útlendingarnir dansa can-can og hlusta á djass og í þeim hópi eru gallagripir á borð við skuggalega blökkumanninn, andbyltingarsinnann og hina siðlausu Dívu sem verður ástfangin af fyrirliða sovéska liðsins. Illir kapítalistar, sílspikaðir og svælandi vindla, reyna að múta kommúnistunum ungu til að tapa viljandi, en þegar það mistekst er liðinu varpað í fangelsi. Gálginn bíður, en verkalýðurinn í borginni sem hrifist hefur af snilli og mannkostum gestanna rís upp og frelsar knattspyrnumennina með byltingu. Sjáið bara fyrir ykkur lokaatriðið í Rocky 4, nema undir öfugum formerkjum. Gullöldinni lýkur á sigurdansi íþróttamanna og frjáls verkafólks á götum stórborgarinnar og boðskapurinn hefði vart mátt skýrari vera. Hitt er annað mál að tónlistarfræðingar hafa bent á að kaflarnir sem sýna áttu þjóðhollustu verkalýðsæskunnar séu frekar flatir og tilþrifalitlir, á meðan Sjostakovítsj nái sér best á strik í þeim hlutum sem áttu að skrumskæla spillta og firrta tónlist kapítalistanna. Tónskáldið heillaðist af dökku hliðinni.
Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið „Það er enginn séns að reyna alltaf að útskýra sig“ Tónlist „Ég þori alveg að fullyrða að ég er skítsæmileg móðir“ Lífið Hundruðum svekktra tónleikagesta vísað frá Hvalasafninu Lífið Frelsaði húsgögn Brynhildar Lífið Fréttatían: Mannlíf, ferðamenn og Trump Lífið Hafa bæði kvatt sín fyrrverandi og eru alsæl saman Lífið Skellti sér á djammið Lífið Tengdadóttir forsætisráðherra í innsta koppi Loftssystkina Lífið Tengdó hringdi og vildi vita hvort Sunnu Dís hefði í alvöru liðið svona Lífið „Er ekki að fara fram á það lifa lífinu í bómull“ Lífið Fleiri fréttir Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira