Viðskipti innlent

Lárus Welding á­kærður fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lárus Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar aðalmeðferð Stím-málsins fór fram.
Lárus Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar aðalmeðferð Stím-málsins fór fram. vísir/anton brink

Héraðssaksóknari hefur ákært fimm fyrrverandi starfsmenn Glitnis fyrir markaðsmisnotkun. Um er að ræða umfangsmikið mál sem sérstakur saksóknari hafði til rannsóknar en Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta bankans, eru tveir hinna ákærðu.

Auk þess að vera ákærður fyrir markaðsmisnotkun er Lárus einnig ákærður fyrir umboðssvik.

Aðrir fyrrverandi starfsmenn Glitnis sem ákærðir eru í málinu eru þeir Jónas Guðmundsson, Valgarð Már Valgarðsson og Pétur Jónsson. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 15. apríl næstkomandi en rannsókn þess lauk seint á seinasta ári.

Báðir verið dæmdir áður fyrir hrunmál

Þeir Lárus og Jóhannes hafa báðir hlotið dóma fyrir mál tengd efnahagshruninu. Í desember í fyrra var Jóhannes dæmdur í þriggja ára fangelsi í Hæstarétti fyrir aðild sína að BK-málinu. Þá hlaut Lárus fimm ára fangelsisdóm í héraði vegna Stím-málsins í janúar síðastliðnum og Jóhannes tveggja ára dóm. Þeim dómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Lárus var einnig ákærður í Vafningsmálinu svokallaða sem og Aurum-málinu. Lárus var sýknaður í Hæstarétti af ákæru í Vafningsmálinu og í héraði í Aurum-málinu. Hæstiréttur ógilti hins vegar dóm héraðsdóms í því máli vegna vanhæfis sérfróðs meðdómanda og þarf því að taka Aurum-málið aftur fyrir í héraðsdómi. Aðalmeðferð þess á að hefjast 12. apríl næstkomandi.

Stjórnendur annarra banka hlotið dóma fyrir markaðsmisnotkun

Með ákærunni í markaðsmisnotkunarmálinu nú hafa fyrrverandi stjórnendur í öllum stóru viðskiptabönkunum þremur fyrir hrun verið ákærðir fyrir markaðsmisnotkun.

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var í janúar dæmdur í 18 mánaða fangelsi í Hæstarétti fyrir markaðsmisnotkun. Þá voru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Ingólfur Helgason dæmdir í héraði síðastliðið vor fyrir markaðsmisnotkun en þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar sem enn á eftir að taka málið fyrir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×