Íslenski boltinn

Markaveisla í Egilshöll í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir hefur skorað 15 mörk í fyrstu fjórum leikjunum.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir hefur skorað 15 mörk í fyrstu fjórum leikjunum. Fréttablaðið/Ernir
Úrslitaleikur Reykjavíkurmóts kvenna í fótbolta fer fram í Egilshöllinni klukkan 18.45 í kvöld en þar mætast Fylkir og Valur. Bæði liðin hafa verið í miklum ham í mótinu til þessa og eru búin að vinna alla fjóra leiki sína, Fylkiskonur með markatölunni 31-1 og Valskonur með markatölunni 21-0.

Þarna mætast líka tveir langmarkahæstu leikmenn mótsins en Fylkiskonan Berglind Björg Þorvaldsdóttir hefur skorað 15 mörk í 4 leikjum (sexa, ferna, þrenna og tvenna) en Valskonan Margrét Lára Viðarsdóttir er með 13 mörk í 4 leikjum (fimma, ferna og tvær tvennur). Þær hafa því ekki aðeins skorað í öllum leikjum sínum heldur tvö mörk eða fleiri í þeim öllum.

Valur tapaði fyrir KR í úrslitaleiknum í fyrra en vann Fylki í úrslitaleiknum árið áður. Valur hefur unnið Reykjavíkurmótið 23 sinnum en Fylkir getur unnið það í fyrsta sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×