Körfubolti

ÍR-ingar þurfa að halda sér í deildinni án bandarísks leikmanns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonathan Mitchell er kominn í sumarfrí.
Jonathan Mitchell er kominn í sumarfrí. Vísir/Anton
Hrakfallatímabil Jonathan Mitchell er á enda en bandaríski miðherji ÍR-inga mun ekki taka þátt í fjórum síðustu leikjum ÍR-liðsins í Domino´s deild karla í körfubolta vegna veikinda.

Elvar Guðmundsson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍR, staðfesti þessar slæmu fréttir í samtali við Karfan.is í dag.

Mitchell fékk slæma lungnabólgu á dögunum og var hann þegar búinn að missa úr einn leik sem var á móti Njarðvík í síðustu viku. ÍR-ingar voru nálægt sigri í þeim leik en munu sakna mikið stigahæsta og frákastahæsta leikmanns liðsins.

Mitchell var þegar búinn að missa af fjórum deildarleikjum á tímabilinu en fyrr í vetur gat hann ekki spilað með ÍR í fjórum leikjum eftir að hafa fengið blóðtappa í annan fótinn.

Jonathan Mitchell er fjórði stigahæsti leikmaður deildarinnar með 26,4 stig í leik og þá er hann áttundi í fráköstum með 11,1 frákast í leik. Það eru líka aðeins tveir leikmenn sem eru með hærra framlag að meðaltali.

ÍR hefur aðeins unnið 1 af 4 leikjum sínum án Jonathan Mitchell í vetur og sá sigur kom á móti Stjörnunni 29. október. Hinir fjórir sigrar liðsins hafa komið með Mitchell innanborðs.

ÍR mætir Hetti á Egilsstöðum í kvöld en Höttur er sex stigum á eftir ÍR þegar fjórar umferðir og átta stig eru eftir í pottinum. Höttur verður að vinna leikinn í kvöld til að eiga möguleika á því að ná ÍR og halda sér í deildinni. Tap þýðir fall úr deildinni.  

Hattarliðið hélt sér á lífi með því að vinna FSU í síðustu umferð en liðið hefur spilað mjög vel að undanförnu og var hársbreidd frá því að vinna bæði Tindastól (81-84), Keflavík (66-69) og Snæfell (89-90) en liðið tapaði þessum þremur leikjum með samtals sjö stigum.


Tengdar fréttir

Af hverju braut ÍR ekki?

Kjartan Atli Kjartansson, Hermann Hauksson og Friðriksson gerðu upp átjándu umferðina í Dominos-deild karla í þættinum Körfuboltakvöldi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×