Nemendafélög Menntaskólans á Akureyri, Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu, Menntaskólans á Tröllaskaga, Verkmenntaskólans á Akureyri, Verkmenntaskóla Austurlands og Framhaldsskólans á Laugum drógu sig úr keppninni.
Í sameiginlegri yfirlýsingu síðastnefndu skólanna fimm segir að fyrirhugaðar breytingar á keppninni komi illa við skóla á landsbyggðinni og sé skólum mismunað eftir landfræðilegri staðsetningu.
Nýtt fyrirkomulag veldur usla
Til stendur að aðeins tólf atriði taki þátt í lokakeppninni sem fram fer í Reykjavík 9. apríl. Hver skóli þarf að senda upptöku af sínu atriði inn til sérstakrar dómnefndar sem metur atriðin og velur þau sem munu taka þátt í aðalkeppninni.
Hver skóli greiðir 40 þúsund krónur fyrir það að senda inn slíka upptöku auk þess sem þeir skólar sem valdir verða áfram í lokakeppninni greiða 30 þúsund í þátttökugjald. Þá bætist við að skólar þurfa að skuldbinda sig til þess að selja 20 til nemenda sinna á aðalkeppnina.
Þetta gagnrýna nemendafélögin harðlega og segja ekkert tillit tekið til þess aukakostnaðar sem falli á nemendafélög landsbyggðarskóla, dýrt sé að senda keppendur tvisvar til Reykjavíkur auk áhorfenda.
Skoða það að halda eigin keppni á Akureyri
Í yfirlýsingu frá nemendafélagi Menntaskólans á Akureyri er tekið undir þessi sjónarmið skólanna fimm og því bætt við að skólarnir séu með fyrirætlanir um að halda eigin keppni á Akureyri með skólum sem ekki hyggjast taka þátt í söngkeppni Framhaldsskólanna.
Söngkeppnin er gjarnan einn stærsti viðburður félagslífsins í skólaári framhaldsskólanna. Forsvarsmenn keppninnar segja þó að svo virðist sem að dvínandi áhugi hafi virst fyrir keppninni og reynst hafi erfitt að fá fólk til að mæta á aðalkeppni.
Keppnin hefur gjarnan verið haldin á Akureyri en stjórn keppninnar ákvað að það væri ekki hægt í ár vegna kostnaðar við að halda keppnina þar, hefði þáttökugjald þurft að vera um 150 þúsund krónur. Til þess að halda þáttökugjaldinu niðri hefði því verið ákveðið að að flytja söngkeppnina til Reykjavíkur.
Sameiginleg yfirlýsing nemendafélaga VMA, FAS, FL, VA og MTR
Undanfarin ár hafa orðið miklar breytingar á Söngkeppni framhaldsskólanna. Í ár hafa orðið enn frekari breytingar sem fela í sér að einungis 12 skólar af 30 munu fá tækifæri til að taka þátt í lokakeppninni.
Þetta hefur orðið til þess að Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur þegar dregið sig úr keppninni og ætlum við í Menntaskólanum á Akureyri að gera slíkt hið sama
Fyrirkomulag keppninnar í ár er þannig háttað að allir skólar borga þátttökugjald óháð því hvort þeir komist í gegnum niðurskurðinn eða ekki. Þeir skólar sem svo fá tækifæri til að flytja atriði sitt í keppninni þurfa svo að greiða frekara þátttökugjald auk þess að vera skylt að selja 20 miða á keppnina með tilheyrandi ferðakostnaði fyrir skóla, sérstaklega af landsbyggðinni.
Við teljum að þessar breytingar séu ekki til hagsmunabóta, hvorki fyrir keppendur né framhaldsskólanemanda almennt. Við sjáum því ekki hag okkar að þessu sinni í því að taka þátt en fyriráætlanir eru um að halda okkar eigin keppni hér fyrir norðan, ásamt VMA og fleiri skólum sem hyggjast ekki taka þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna.
Líkt og Þórduna hvetjum við því aðra skóla, sem og landsmenn alla, að kynna sér málið og fylgja því eftir.
Stjórn Hugins:
Agnes Erla Hólmarsdóttir, meðstjórnandi
Bjarki Bernardsson, gjaldkeri
Fannar Rafn Gíslason, varaformaður
Fjölnir Brynjarsson, formaður
Jóhanna Þorgilsdóttir, skemmtannastjóri
Ólafur Ingi Sigurðarson, forseti hagsmunaráðs
Óskar Jóel Jónsson, ritari
Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir, forseti fjáröflunarnefndar