Körfubolti

Sjáðu tvo sturlaða þrista frá Haukunum | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Óskarsson skoraði ótrúlega körfu.
Haukur Óskarsson skoraði ótrúlega körfu. vísir/anton brink
Haukar unnu sinn fjórða leik í röð í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld þegar þeir lögðu Stjörnuna, 77-70, í spennandi og framlengdum leik í Ásgarði.

Tvær rosalegar þriggja stiga körfur litu dagsins ljós; ein frá Hauki Óskarssyni og önnur frá Kára Jónssyni. Báðir spila með Haukum.

Haukur bauð upp á flautukörfu í þriðja leikhluta, en þessi öfluga skytta tók frákast og henti boltanum með annarri hendi yfir allan völlinn og beint ofan í körfuna.

Skotið var af lengra færi en hjá Andre Drummond fyrir Detriot Pistons í NBA-deildinni á dögunum. Hann skoraði af 22 metra færi, en ekki hafði verið skorað af svo löngu færi í NBA í níu ár.



Spennan var mikil í leiknum undir lokin, en Stjarnan vann upp forskot Haukanna í fjórða leikhluta og komst þremur stigum yfir, 66-63, þegar 17 sekúndur voru eftir.

Tómas Heiðar Tómasson nýtti þá aðeins annað af tveimur vítaskotum sínum. Það reyndist Stjörnunni dýrt því Kári Jónsson jafnaði með þriggja stiga körfu þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum.

Hefði Tómas Heiðar skorað úr báðum vítaskotunum hefðu Haukar þurft að skora tvisvar en þessi þriggja stiga karfa var nóg til að koma Haukunum í framlenginu.

Þristurinn hjá Kára var ekkert lítið glæsilegur. Hann dripplaði boltanum ótal sinnum í leit að skotfæri og negldi svo niður skotinu í engu jafnvægi.

Flautukarfan hans Hauks: Kári tryggir Haukum framlengingu:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×