Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Njarðvík 76-83 | Njarðvík kreisti fram sigur gegn kanalausum ÍR-ingum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Hertz-hellinum skrifar
Haukur Helgi skoraði 28 stig í fyrri leiknum gegn ÍR.
Haukur Helgi skoraði 28 stig í fyrri leiknum gegn ÍR. vísir/ernir
Njarðvík vann sinn ellefta sigur á tímabilinu er liðið hafði betur gegn ÍR í Seljaskóla í kvöld.

ÍR var án Jonathan Mitchell, miðherjans síns, sem er að jafna sig eftir að hafa fengið lungnabólgu í síðustu viku.

Þrátt fyrir það var mikill kraftur í ÍR í fyrri hálfleik og máttu Njarðvíkingar þakka fyrir að vera stigi yfir að honum loknum, 40-39.

Varnarleikur ÍR útheimti mikla orku og hún fór þverrandi eftir því sem leið á síðari hálfleikinn. Njarðvík ók hraðann í sínum leik og Jeremy Atkinson reyndist Breiðhyltingum erfiður í teignum.

Njarðvík gat þó aldrei slakað á og var lengi að komast almennilega í gang. Magiej Baginski og Oddur Kristjánsson, fyrrum leikmaður ÍR, tryggðu gestanum svo endanlega sigur fyrir utan þriggja stiga línuna undir lok leiksins.

Gestirnir skoruðu fyrstu sex stig leiksins og töldu sjálfsagt einhverjir að það væri bara byrjunin á algerri einstefnu þeirra grænklæddu. En þvert á móti komu ÍR-ingar strax til baka, náðu forystunni og voru skrefi á undan út allan leikhlutann.

Sveinbjörn Claessen, fyrirliði ÍR, keyrði sína menn áfram með sínum dugnaði og baráttu að venju og þá átti Björgvin Ríkharðsson frábæran leik sem sést einna best á því að hann skoraði þrettán stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar.

ÍR-ingar fengu framlag frá fleiri mönnum af bekknum sem var lífsnauðsynlegt, sérstaklega í fjarveru Mitchell. Að sama skapi voru Njarðvíkingar afar lengi í gang. Sóknarleikurinn hikstaði mikið, allt fram í þriðja leikhluta er ÍR-ingar voru farnir að þreytast og lenda í villuvandræðum.

Njarðvíkingar voru skrefi á undan allan fjórða leikhluta en höfðu þó aldrei efni á að slaka á. Atkinson var drjúgur í teignum og var stigahæstur gestanna með 26 stig og munaði miklu að Logi Gunnarsson kom inn í sóknarleik þeirra af meiri krafti eftir því sem leið á leikinn. Oddur Kristjánsson, sem skoraði ekki stig í fyrri hálfleik, setti niðuir mikilvæga þrista undir lokin, sem og Maciej, og gerðu þeir endanlega út um vonir ÍR-inga.

Haukur Helgi Pálsson sýndi góð tilþrif inn á milli en það hægði á honum í stigaskorun eftir sterka byrjun. Hann endaði með sextán stig.

Það verður að hrósa ÍR fyrir mikla og góða baráttu í kvöld og þann dugnað sem liðið sýndi í fjarveru Mitchell. Njarðvík leit að sama skapi ekki nógu sannfærandi út og þó svo að engum dyljist hversu miklir hæfileikar eru í liðinu er ekki hægt að bíða endalaust eftir því að liðið slípist til, enda styttist óðum í úrslitakeppnina.

Njarðvík er þó enn í góðri stöðu fyrir heimavallarrétt í úrslitakeppninni og ef þjálfurum liðsins tekst að fá góðar 40 mínútur úr þessum leikmannahópi er fátt því til fyrirstöðu að Njarðvík geti farið langt inn í úrslitakeppnina. En miðað við frammistöðuna í kvöld virðist enn vera nokkuð í land með það.

ÍR-Njarðvík 76-83 (25-23, 14-17, 16-22, 21-21)



ÍR: Sveinbjörn Claessen 24/9 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 13/9 fráköst/8 stoðsendingar, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 12/4 fráköst, Vilhjálmur Theodór Jónsson 11/5 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 8, Daði Berg Grétarsson 5, Trausti Eiríksson 3/10 fráköst.

Njarðvík: Jeremy Martez Atkinson 26/5 fráköst, Haukur Helgi Pálsson 16/5 fráköst/4 varin skot, Maciej Stanislav Baginski 14/4 fráköst, Logi  Gunnarsson 12/4 fráköst/6 stoðsendingar, Oddur Rúnar Kristjánsson 9/5 stoðsendingar, Hjörtur Hrafn Einarsson 5/6 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 1.

Friðrik Ingi: Hæfileikarnir stundum að flækjast fyrir okkur

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkur, dáðist að frammistöðu ÍR-inga í kvöld en hefði viljað sjá meiri baráttu hjá sínum mönnum.

„Það hefur oft verið erfitt að koma hingað í Seljaskóla. Í fjarveru Kanans þeirra þjöppuðu menn sér saman og þeir börðust mjög vel - léku eins og að þeir hefðu engu að tapa en allt að vinna.“

„Ég dáist að ÍR-ingum. Þeir voru grimmir og duglegir,“ sagði Friðrik Ingi en sá hann nógu mikið af því hjá þeim grænklæddu?

„Það komu kaflar en það vantar enn nokkuð upp á, ef ég á að vera hreinskilinn. Þetta er að þokast í rétta átt. Liðið hefur ekki fengið marga leiki allir saman og þetta verður vonandi betra með hverjum leiknum.“

„Ég tel að það hafi vantað upp á dugnaðinn í dag. Við hefðum getað gert þetta auðveldara fyrir okkur með baráttu í fráköstum og í seinni boltum. En ég er ánægður með að fara héðan með tvö stig.“

Hann segist ekki hafa áhyggjur af stöðu liðsins svo stuttu fyrir úrslitakeppnina.

„Maður er bara önnum kafinn við að slípa hópinn og liðið saman. Það er það sem maður hugsar um á hverjum degi. Ég tel að við getum fengið ákveðinn meðbyr og við erum að vinna jafnt og þétt í því.“

„Það eru miklir hæfileikar í liðinu og það er stundum eins og að hæfileikarnir flækist fyrir okkur. Við þurfum að læra inn á það og hvernig við getum látið hlutina flæða betur.“

Oddur: Vorum afar góðir á æfingum í vikunni

Oddur Kristjánsson spilaði með ÍR fyrir áramót og var því kominn aftur á sinn gamla heimavöll í kvöld. Hann var lengi í gang en skoraði mikilvæg stig í fjórða leikhluta.

„Þeir náðu að standa í okkur og gefa okkur hörkuleik. Við náðum ekki að klára þetta fyrr en rétt svo í lokin,“ sagði Oddur sem sagði gaman að fá að spila aftur í Seljaskóla.

Hann segir ekki gott að segja hvort að Njarðvíkingar hafi verið værukærir í þessum leik, enda ÍR ekki með bandaríska leikmanninn sinn í kvöld.

„Kannski í undirmeðvitundinni. En við reyndum ekkert að hugsa um það enda ÍR með hörkulið eins og ég veit manna best. Mér fannst við ekkert ná að hitta almennilega. Þeir náðu því að hanga í okkur.“

Hann taldi að Njarðvík hafi verið réttri leið í vikunni fyrir þennan leik. „Við vorum afar góðir á æfingum í vikunni og því kom frammistaðan á óvart í kvöld. En þetta er allt að koma hjá okkur.“

Oddur segir að viðskilnaðurinn hafi verið góður við ÍR á sínum tíma. „Þetta eru allt félagar mínir. Ég er bara ánægður þar sem ég er núna. Við ætlum bara að vinna rest og reyna að fá heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Við sjáum svo bara hvað setur eftir það.“

Trausti: Söknuðum Mitchell

Trausti Eiríksson sýndi eins og aðrir ÍR-ingar mikla baráttu í varnarleik Breiðhyltinga í kvöld en hann viðurkennir að það hafi verið slæmt að hafa verið án Jonathan Mitchell í kvöld.

„Við getum alveg spilað án hans [Mitchell] en við söknuðum hans. Við förum ekkert leynt með það,“ sagði Trausti sem segir að það verði erfitt úr þessu að koma ÍR í úrslitakeppnina.

„Ég veit að það er klisja en við tökum bara einn leik fyrir í einu. Þannig er það bara. Næst er það leikur á Egilsstöðum.“

Það var mikil barátta í leiknum í kvöld og varnartilþrifin mörg hver góð, ekki síst hjá Trausta sjálfum.

„Það er auðvitað skemmtilegast að spila í svona jöfnum leikjum og hafa gaman að því sem maður er að gera. Þetta gekk bara því miður ekki í dag hjá okkur en vonandi fengu áhorfendur skemmtilegan leik.“

„Það vantaði lítið upp á en þeir hittu vel í restina. Við gerðum okkar besta en það var ekki nóg í dag.“

Borce: Leikskólastrákarnir af bekknum

Borce Ilievski var afar stoltur af sínu liði þrátt fyrir tapið gegn Njarðvík í kvöld og hrósaði sínum mönnum óspart.

ÍR hékk í Njarðvík fram á lokamínútur leiksins og barðist fram á síðustu sekúndu.

„Þetta var því miður ekki nóg. Við reyndum hvað við gátum að bæta fyrir fjarveru [Jonathan] Mitchell og það kostaði mikla orku. Við börðumst þó í 40 mínútur og strákarnir eiga að vera stoltir af þessum leik þrátt fyrir tapið.“

Hann segist hafa saknað þess að sjá almennilega baráttu hjá sínum mönnum eftir að hann tók við á miðju tímabili en hann naut þess að horfa á ÍR spila í kvöld.

„Það skiptir ekki máli að liðið tapaði í kvöld. Ég er ánægður. Við spiluðum grimmt og það þýðir villuvandræði en dómararnir stóðu sig virkilega vel í kvöld og dæmdu afar vel.“

Ilievski notaði marga unga leikmenn í kvöld og kallaði þá „leikskólastrákana sína af bekknum“.

„Njarðvík er með reynslumikið lið og vita hvernig á að klára svona jafna leiki. Ég óska þeim alls hins besta fyrir lok tímabilsins.“

ÍR á litla möguleika á sæti í úrslitakeppninni úr þessu en Ilievski segir að hans menn muni halda áfram að berjast. Þá sé hann byrjaður að hugsa um næsta tímabil og ætli að gefa ungu mönnunum fleiri mínútur.

„Næstu leikur er gegn Hetti sem vann í kvöld og við ætlum að fara í þann leik með sama baráttuanda og við gerðum í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×