Innlent

„Að komast tvö ofan í er vel af sér vikið“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Við pottinn var bakpoki og má telja ansi líklegt að um ferðamenn sé að ræða.
Við pottinn var bakpoki og má telja ansi líklegt að um ferðamenn sé að ræða. Mynd/Grímkell Pétur Sigurþórsson
Grímkell Pétur Sigurþórsson og Hildur María Gunnarsdóttir fóru í sérstaklega eftirminnilegan göngutúr um Seltjarnarnesið í gær ásamt dóttur sinni. Bæði gengu þau fram á hvalshræ í fjöruborðinu við Gróttu en augu þeirra urðu enn stærri þegar þau komu að fótabaðspottinum sívinsæla.

Í pottinum, sem allajafna er aðeins notaður á sumrin, höfðu tveir komið sér fyrir. Ekki bara með fæturn heldur lágu þau í pottinum og virðist sjaldan hafa liðið betur ef marka má svip annars þeirra á myndinni að ofan.

Við pottinn var bakpoki og má telja ansi líklegt að um ferðamenn sé að ræða.

„Það getur ekki annað verið,“ segir Grímkell sem notaði tækifærið og hrósaði ferðamönnunum hugmyndaríku:

„Að komast tvö ofan í er vel af sér vikið.“

Blaðamaður hefur farið í fótabað í umræddu fótabaði. Aldrei nokkurn tímann hefði hvarflað að honum að láta einu sinni á það reyna að leggjast ofan í pottinn, svo grunnur og lítill er hann.

Grímkell segist ekki hafa kunnað við að fara nær og taka púlsinn á ferðamönnunum þar sem þau nutu íslensks febrúars á Seltjarnarnesinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×