Körfubolti

Kári í miklu stuði á Þorranum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Jónsson.
Kári Jónsson. Vísir/Auðunn
Haukamaðurinn Kári Jónsson hefur verið aðalmaðurinn í þriggja leikja sigurgöngu Hafnfirðinga í Domino´s deild karla í körfubolta en þessi átján ára strákur hefur skorað yfir tuttugu stig í öllum þremur leikjunum.

Kári hefur skilað frábærum tölum á Þorranum en í sigurleikjum á móti Tindastól, FSu og ÍR var hann með þrjá tuttugu stiga leiki, einn þrjátíu stiga leik og eina þrennu.

Kári er með 23,3 stig, 7,0 fráköst og 7,7 stoðsendingar að meðaltali á Þorranum í ár en hann hefur hitt úr fimmtíu prósent þriggja stiga skota sinna í öllum þremur leikjunum.

Kári hefur smellt niður 10 af síðustu 20 þriggja stiga skotum sínum og var alls með 61 prósent skotnýtingu (28 af 46) í síðustu þremur leikjum. Hann þurfti því aðeins 46 skot til að skora 76 stig í sigurleikjunum á móti Tindastól, FSu og ÍR.

Kári hefur ennfremur skilað 32 framlagsstigum að meðaltali í leikjum Hauka síðan að Þorrinn gekk í garð 22. janúar síðastliðinn.

Kári náði í sína fyrstu þrennu í úrvalsdeildinni í sigrinum á FSu á föstudagskvöldið og fylgdi því eftir með sínum fyrsta þrjátíu stiga leik á móti ÍR í gærkvöldi.

Hann bætti sitt persónulega stigamet á móti ÍR í gær en hann mest áður skorað 29 stig í sigri á Hetti á Egilsstöðum í síðasta leik Haukaliðsins fyrir jól.

Kári hefur verið stigahæstur í tveimur þessara leikja, stoðsendingahæstur í tveimur þeirra og frákastahæstur í einum.



Leikir Kára Jónssonar á Þorranum 2016:

79-76 sigur á Tindastól

20 stig - 4 fráköst - 7 stoðsendingar - hitti úr 7 af 13 skotum

103-78 sigur á FSu

26 stig - 11 fráköst - 10 stoðsendingar - hitti úr 10 af 16 skotum

94-88 sigur á ÍR

30 stig - 6 fráköst - 6 stoðsendingar - hitti úr 11 af 17 skotum


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×