Skoðun

Lög brotin á öldruðum og öryrkjum!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Lífeyrir aldraðra og öryrkja frá almannatryggingum á lögum samkvæmt að hækka í samræmi við launaþróun. Eftir þessu hefur núverandi ríkisstjórn ekki farið. Ég tel, að lög hafi verið brotin á lífeyrisþegum. Lítum á staðreyndir málsins: Lágmarkslaun hækkuðu sl. ár um 14,5% (1. maí) en lífeyrir hækkaði aðeins um 3%! Hér vantar 11,5 prósentustig. Ef litið er á hækkun annarra launa vantar meira, þar eð önnur laun hækkuðu miklu meira; t.d. fékk fiskvinnslufólk 30% hækkun byrjunarlauna, nýlæknar 25% hækkun og kennarar og blaðamenn fengu meiri hækkun en verkafólk.

Skuld ríkisstjórnarinnar

Nú hefur verkafólk og aðrir launþegar samið um launahækkun yfirstandandi árs: Laun hækka um 6,2% strax frá áramótum. Þetta þýðir að laun hækka samanlagt um 20,7% árin 2015 og 2016 en lífeyrir hækkar aðeins um 12,7% bæði árin. Hér vantar átta prósentustig.

Auk þess ber að taka með í reikninginn, að verkafólk fékk 14,5 prósenta launahækkunina frá 1. maí en lífeyrisþegar ekki fyrr en um áramót. Allir aðrir fengu afturvirkar launahækkanir. Ríkisstjórnin skuldar því lífeyrisþegum nú átta prósenta hækkun lífeyris og uppbót fyrir tímabilið 1. maí sl. til áramóta. Auk þess skulda stjórnarflokkarnir öldruðum 20 prósenta hækkun lífeyris vegna kjaragliðnunar 2009-2013.

Áfram níðst á lífeyrisþegum

Ef einhver manndómur hefði verið í ríkisstjórninni hefði hún leiðrétt lífeyri aldraðra og öryrkja strax frá áramótum með því að hækka lífeyrinn um átta prósent til viðbótar þessum 9,7 prósentum og gert upp við lífeyrisþega uppbót fyrir tímabilið 1. maí til 31. desember 2015.

En ríkisstjórnin ætlar áfram að níðast á lífeyrisþegum og velur þann kost að berja sér á brjóst og tala um að hún hafi unnið mikil afrek í lífeyrismálum aldraðra og öryrkja!

Lífeyrisþegar geta ekki látið valta yfir sig endalaust. Það er nóg komið.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×