„Samgöngustofa tjáir sig ekki um einstök slys fyrr en rannsókn lögreglu lýkur,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu.
Lögreglan annast rannsókn þessarar tegundar slysa en útgáfa fyrirmæla um köfun fellur undir Samgöngustofu. Öll slys kalla á mögulegar breytingar eftir rannsókn lögreglu að sögn Þórhildar.
„Almennt geta allar rannsóknir á samgönguslysum leitt til þess að verklagi sé breytt í öryggisátt,“ segir hún.
Eftir köfunarslys í Silfru árið 2013 gaf Siglingastofnun út ný fyrirmæli um köfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Fyrirtæki sem bjóða upp á köfun í þjóðgarðinum skila inn öryggis- og viðbragðsáætlun til Samgöngustofu til samþykkis og þau eru hvött til að kynna sér fyrirmæli vegna köfunar. Einstaklingar sem stunda áhugamanna- og sportköfun eru þó ávallt á eigin ábyrgð.

„Ég hef óskað eftir fundi með björgunar- og viðbragðsaðilum. Þjóðgarðurinn hlýtur að velta fyrir sér, þó svo við séum ekki ábyrg fyrir köfuninni, hvort hann eigi að leggja til land, þjónustu og aðstöðu undir starfsemi sem reynist þetta hættuleg. Það er spurning sem þjóðgarðurinn þarf að taka afstöðu til,“ segir Ólafur og bendir á að ásóknin nálgist þolmörk.
Árið 2011 var áætlað að um átta þúsund manns hefðu kafað í Silfru en í fyrra er talið að hátt í þrjátíu þúsund manns hafi kafað. Miðað við þúsund króna gjaldtöku þjóðgarðsins af köfun má áætla að tekjur hafi verið meiri en tuttugu milljónir króna. Áætlaðar tekjur fyrirtækja sem buðu upp á köfun í Silfru voru 100 til 120 milljónir árið 2011.