Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: ÍR - FSu 106-72 | Mikilvæg stig baráttuglaðra ÍR-inga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
ÍR spilaði sinn besta leik undir stjórn Borce Ilievski er liðið vann afar sannfærandi sigur á nýliðum FSu í Domino's-deild karla.

ÍR tryggði um leið að FSu náði ekki að koma sér úr fallsæti á kostnað Breiðhyltinga. ÍR, sem missti einn sinn besta leikmann um áramótin þegar Oddur Kristjánsson fór til Njarðvíkur, stakk FSu af í síðari hálfleik og gaf aldrei eftir.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í Seljaskóla í kvöld og tók þessar myndir hér fyrir ofan.

FSu náði að halda í við ÍR í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að heimamenn voru ávallt skrefinu á undan. En þeir þreyttust fljótt í þeim síðari á meðan að ÍR hélt áfram að spila öflugan og hraðan körfubolta.

Jonathan Mitchell skoraði 36 stig fyrir ÍR í kvöld og fyrirliðinn Sveinbjörn Claessen átti sömuleiðis stórleik og skoraði 26 stig. En liðsheildin var gríðarlega sterk hjá heimamönnum þar sem baráttan var í aðalhlutverki.

FSu vann góðan útisigur á Grindavíku í síðustu umferð en náði ekki að fylgja honum eftir í kvöld. Nýliðarnir mættu einfaldlega ofjörlum sínum að þessu sinni.

ÍR-ingar komu af miklum krafti inn í leikinn og gáfu tóninn. Liðið spilaði vel á báðum endum og komst í 22-11 forystu þegar Selfyssingar rönkuðu við sér.

Gestirnir náðu að halda sér í leiknum með tveimur þriggja stiga körfum en áttu þó erfitt með að stöðva þá Jonathan Mitchell (8 stig í fyrsta leikhluta) og Vilhjálm Theodór (10 stig) í teignum.

Eini bletturinn á frábærri byrjun ÍR var að Björgvin Hafþór Ríkharðsson klikkaði á öllum fjórum skotunum sínum. Hann tók svo ekki skot í öðrum leikhluta og endaði með að nýta aðeins eitt af tíu skotum sínum í leiknum.

Gestirnir náðu aðeins að hægja á ÍR-ingum í öðrum leikhluta, um stundarsakir að minnsta kosti. Nýtingin var svo betri hjá FSu og baráttan meiri undir körfunni. Selfyssingar náðu að minnka muninn í eitt stig, 43-42, áður en ÍR fór aftur á flug. Staðan í hálfleik var 50-43, ÍR í vil.

Heimamenn náðu svo að herða tökin enn frekar og héldu gestunum í aðeins þrettán stigum í þriðja leikhluta með frábærum varnarleik. Sóknarleikurinn hélt áfram að malla vel með þá Sveinbjörn, Mitchell og Vilhjálm í aðalhlutverkum.

FSu reyndi að halda sér í leiknum en skotnýting liðsins var langt í frá nógu góð til þess.

Barátta ÍR-inga í kvöld var til fyrirmyndar. Úrslit leiksins voru nánast ráðin eftir þriðja leikhluta en Breiðhyltingar héldu áfram að reyna að komast fyrir hverja einustu sendingu og börðust fyrir hverjum einasta lausa bolta.

Gestirnir réðu svo lítið við sóknarleik ÍR enda minnkaði ákefð gestanna eftir því sem leið á fjórða leikhluta. Selfyssingar höfðu varla fyrir því að brjóta á ÍR-ingum.

Mitchell og Sveinbjörn áttu stórleik í kvöld. Vilhjálmur byrjaði svakalega vel og Trausti Eiríksson átti svo öfluga innkomu. Skotnýting Björgvins, sem skoraði aðeins tvö stig, var slök en baráttan og vinnslan til fyrirmyndar eins og hjá öðrum í liði ÍR. Björgvin tók tíu fráköst og gaf fimm stoðsendingar sem segir sitt.

FSu átti einfaldlega ekki svar við leikáætlun ÍR í kvöld. Woods reyndi að halda sínum mönnum á floti en baráttan við Mitchell í teignum var erfið. Skotin hjá bakvörðunum gengu svo illa og þá er ekki að spyrja að niðurstöðunni.

ÍR-FSu 106-72 (24-20, 26-23, 28-13, 28-16)

ÍR: Jonathan Mitchell 36/10 fráköst, Sveinbjörn Claessen 26, Vilhjálmur Theodór Jónsson 12/5 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 8, Sæþór Elmar Kristjánsson 7, Trausti Eiríksson 6/4 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 3, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 2/10 fráköst/5 stoðsendingar, Kristófer Fannar Stefánsson 2, Daði Berg Grétarsson 2/4 fráköst/6 stoðsendingar, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 2.

FSu: Christopher Woods 27/20 fráköst, Cristopher Caird 9, Hlynur Hreinsson 9, Gunnar Ingi Harðarson 7, Geir Elías Úlfur Helgason 6, Ari Gylfason 4, Bjarni Geir Gunnarsson 4, Arnþór Tryggvason 4/5 fráköst, Maciej Klimaszewski 2.

Borce: Í fínum málum ef við spilum svona

„Við vorum komnir út í horn. Þetta var leikur sem við urðum að vinna,“ sagði Borce Ilievski, þjálfari ÍR, eftir sigurinn á FSu í kvöld.

„Leikmenn mínir svöruðu fyrir sig í þessum leik,“ segir hann og bætir við að undirbúningur fyrir þennan leik nái alla leið aftur til jóla.

„Fyrir leikinn gegn Tindastóli vorum við í raun að búa okkur undir þennan leik. Við vorum með tvö ólík kerfi í gangi í sókn og vörn en spiluðum af miklum krafti. Undirbúningurinn var fullkominn.“

„Ég óska strákunum til hamingju. Þeir lögðu virkilega hart að sér og hafa gert síðan um jólin.“

Það var liðsframmistaðan sem stóð upp úr í kvöld þó svo að nokkrir hafi átt stórleik. Þjálfarinn var sammála því.

„Við erum með þunnan hóp en ég vildi sjá sem flesta í fyrri hálfleik til að sjá hver gæti fært mér eitthvað aukalega í þeim síðari. En flestir stóðu sig virkilega vel í kvöld og ég er afar ánægður með alla mína menn.“

Hann segir að sigurinn þýðir að það sé allt opið fyrir hans menn, þrátt fyrir að það séu erfiðir leikir fram undan. „En ef við spilum eins og við gerðum í kvöld verðum við í fínum málum,“ bætti Borce við.

Fyrirliðinn Sveinbjörn Claessen var magnaður í kvöld og hann fékk hrós frá þjálfaranum fyrir að taka af skarið. „Oddur [Kristjánsson] var hér og Sveinbjörn er það indæll maður að hann lét honum eftir að vera í leiðtogahlutverki í liðinu. En þegar Oddur fór tók hann aftur við þeirri ábyrgð og hann ýtir öllu liðinu áfram.“

Vilhjálmur: Undirbjuggum okkur lengi fyrir þennan leik

Vilhjálmur Theodór Jónsson átti góðan leik í kvöld eins og svo margir í liði ÍR. Hann var sérlega öflugur framan af leik þegar Breiðhyltingar lögðu grunninn að sigrinum sínum.

„Við fengum mikið framlag frá mörgum leikmönnum. Allir náðu að skora og varnarleikurinn var frábær,“ segir vilhjálmur en hann segir að undirbúningurinn fyrir þennan leik hafi verið fullkominn.

„Við vissum að þessi leikur væri mjög mikilvægur og við höfum verið með augun á honum síðan um jólin.“

Margir stigu upp í liði ÍR sem missti Odd Kristjánsson til Njarðvíkur nú um áramótin.

„Kaninn okkar var frábær í kvöld. Þá hafa fráköstin okkar verið vandamál en Bjöggi [Björgvin Ríkharðsson] var öflugur í þeirri baráttu. En fyrst og fremst náðum við að standa okkur vel sem lið og fylla í skarðið hans Odds með því að leggja allir allt í leikinn.“

„Það var ekki sjá að það vantaði neitt í kvöld. Allt gekk út á að koma með gott framlag og við gerðum það.“

Olson: Veittum þeim ekki samkeppni

Erik Olson var ekki að draga úr því að hans menn náðu ekki að sýna sitt besta gegn ÍR-ingum í kvöld.

„Þetta var slæmt tap. Við létum hlaupa með okkur út úr íþróttahúsinu í kvöld,“ sagði Olson eftir leikinn.

„Við náðum aldrei að koma með þá baráttu sem þurfti í kvöld. ÍR vildi meira, nýttu sér sína reynslu og spiluðu virkilega vel í kvöld. Borce var með sína menn tilbúna í kvöld.“

„En við vissum að við værum að koma í erfiðan leik. Ég varð fyrst og fremst fyrir vonbrigðum með okkar menn. Við veittum þeim ekki samkeppni, hvorki í vörn né sókn.“

Hann segir að leikurinn hafi þróast á svipaðan máta og gegn Grindavík í síðustu umferð þar sem að hans menn náðu að koma til baka eftir að hafa verið undir í hálfleik, rétt eins og í kvöld.

„Þá komum við inn í seinni hálfleik með mikinn kraft en það gagnstæða gerðist í kvöld. Það leit út fyrir að við værum allir að bíða eftir því að einhver annar myndi gera eitthvað.“

„Það vantaði upp á alla samvinnu, bæði í vörn og sókn. Þetta var mikið maður á mann á báðum endum vallarins. Það var ekki mikið um hjálparvörn og lítið um gagnlegar sendingar í sókn, enda gáfum við aðeins átta stoðsendingar í öllum leiknum.“

FSu fékk aðeins ellefu villur í leiknum og Olsen tekur undir um að það sé merki um að það hafi vantað upp á baráttuna.

„Ég ætla ekki að koma með neinar afsakanir. ÍR spilaði frábærlega og við vorum ekki tilbúnir. Þeir sneru okkur niður.“

„En það er mikið eftir af tímabilinu og þó svo að vonbrigðin hafi verið mikil í kvöld. Við verðum bara að reyna að fara í hvern leik til að vinna hann.“

Erik Olson.Vísir/Ernir
Borce Ilievski.Vísir/Ernir
Hlynur Hreinsson hjá FSu í baráttunni við ÍR-inginn Björgvin Hafþór Ríkharðsson.Vísir/Ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×