Kappræður fóru fram í sjónvarpi í gærkvöldi þar sem Trump eyddi miklu púðri í að sá efasemdum um að Cruz væri yfir höfuð gjaldgengur í embætti forseta.
Cruz er fæddur í Kanada og er móðir hans bandarísk og faðir hans frá Kúbu. Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna þarf forseti að vera fæddur í landinu, þótt á þetta ákvæði hafi raunar aldrei reynt fyrir hæstarétti.
Frambjóðendur Repúblikana ræddu meðal annars þjóðaröryggi, efnahagsmál og utanríkismál, en forval flokkanna hefst í Iowa þann 1. febrúar næstkomandi.
Þeir sjö frambjóðendur sem mælast með mest fylgi meðal kjósenda Republikanaflokksins tóku þátt í kappræðunum – Donald Trump, Ted Cruz, Marco Rubio, Ben Carson, Jeb Bush, Chris Christie og John Kasich.
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum mælist Trump með 33 prósenta fylgi, Cruz 20 prósenta og Marco Rubio þrettán prósenta fylgi.
Frambjóðandi Repúblikana í forsetakosningunum 2008, John McCain, fæddist á svæði í kringum Panamaskurðinn, sem þá var undir stjórn Bandaríkjanna. Í lögfræðiáliti sem unnið var af báðum stóru flokkunum á Bandaríkjaþingi á sínum tíma kom hins vegar fram að McCain taldist hafa fæðst í „Bandaríkjunum“ og væri því gjaldgengur til að gegna embætti forseta.