Erlent

Sanders siglir fram úr Clinton

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bernie Sanders
Bernie Sanders
Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður frá Vermont, mælist nú með meira fylgi en Hillary Clinton í einu af fyrstu ríkjunum þar sem demókratar kjósa um frambjóðanda sinn til forsetaembættisins. Í könnun Franklin Pierce-háskólans kemur fram að Sanders mælist með 44 prósenta fylgi en Clinton mælist í 37 prósentum.

Markar þessi könnun tímamót því fram að þessu hafði Hillary Clinton leitt í öllum könnunum, í öllum ríkjum.

Upprisa Sanders hefur vakið athygli en baráttufundi hans sækja fleiri en nokkurs annars frambjóðanda. Til dæmis sóttu tæplega þrjátíu þúsund manns fund hans í borginni Portland og álíka margir í Los Angeles degi síðar.

Sanders talar fyrir opinberu heilbrigðiskerfi þar sem allir fái þjónustu, hærri lágmarkslaunum og uppskiptingu bankanna. Auk þess er hann ötull talsmaður mannréttinda en hann gekk meðal annars með Martin Luther King til Washington á sínum tíma.

Hillary Clinton fékk fleiri slæmar fréttir í gær en henni var gert að afhenda alríkislögreglu sinn persónulega tölvupóstsnetþjón sem hún notaði í starfi sínu sem utanríkisráðherra. Clinton hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa notað sinn eigin tölvupóst í starfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×