Erlent

Allt að 1.247 almennir borgarar féllu í loftárásum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Almennir borgarar forða sér úr rústum húss sem varð fyrir loftárás í sýrlenska bænum Douma.
Almennir borgarar forða sér úr rústum húss sem varð fyrir loftárás í sýrlenska bænum Douma. nordicphotos/afp
Á milli 489 og 1.247 almennir borgarar hafa fallið í loftárásum Bandaríkjahers og herja bandamanna þeirra á Íslamska ríkið. Þetta kemur fram í úttekt hóps blaðamanna sem kallar sig Airwars. Hópurinn hefur tekið saman og birt tölfræði um loftárásirnar, sem nú hafa staðið yfir í eitt ár.

Mannfallið varð í 140 loftárásum en bandalagið gegn Íslamska ríkinu viðurkennir einungis fall tveggja almennra borgara. Samtals eru loftárásir bandalagsins rúmlega 5.700 talsins og hafa í þeim fallið um 17.000 sprengjur.

„Herferðin er sú nákvæmasta og agaðasta í sögu lofthernaðar,“ sagði John Hesterman yfirhershöfðingi.

Verkefnisstjóri Airwars, Chris Woods, er hins vegar ekki sammála Hesterman. „Áherslan á nákvæmni hefur ekki skilað sér á jörðu niðri að okkar mati,“ sagði Woods við fréttastofu Guardian. Í yfirlýsingu Airwars segir að misræmi milli mannfalls sem bandalagið viðurkennir og þess sem sést á jörðu niðri sé áhyggjuefni. Bandalagið ætlar hins vegar ekki að rannsaka mannfall nema efnisleg sönnunargögn séu fyrir hendi.

Sahr Muhamadally, baráttumaður fyrir réttindum almennra borgara í stríðinu, segir að rannsaka þurfi öll tilfelli mannfalls meðal almennra borgara sem greint er frá, hvort sem sönnunargögn séu fyrir hendi eður ei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×