
„Það ástand sem hefur skapast er óþolandi og kemur til með að valda óbætanlegu tjóni fyrir fjölda sjúklinga og skaða heilbrigðisþjónustuna bæði til skamms tíma og til lengri tíma litið. Stjórnvöld bera nú ábyrgð á því að ljúka þessu ástandi með einum eða öðrum hætti,“ segir jafnframt í erindi landlæknis.
Fram kemur að Embætti landlæknis hafi með jöfnu millibili leitað eftir mati stjórnenda heilbrigðisstofnana á áhrifum verkfallanna. Ljóst sé að margra vikna verkfall BHM, auk uppsafnaðs vanda vegna verkfalls lækna, hafi í för með sér mjög erfitt ástand í heilbrigðiskerfinu. Síðan bætist við verkfall hjúkrunarfræðinga.
„Í hnotskurn má segja að ekki verði hægt að tryggja öryggi sjúklinga og getur því ástandið valdið ómældum og óbætanlegum skaða,“ segir Birgir.
Þegar sé ljóst að fjölmargir sjúklingar hafi orðið fyrir verulegum óþægindum, drætti á greiningu og töfum á meðferð. „Og munu áhrif þess aukast í stigvaxandi mæli eftir því sem verkföllin dragast á langinn.“