Skoðun

Tálsýn verulegra launahækkana

Heiðrún Lind Marteinsdóttir skrifar
Miðað við fréttir liðinna daga má búast við því að stór hluti vinnandi fólks fari í þvingað launalaust sumarfrí og óvíst er hversu lengi það mun standa og hverju það mun skila. Sá stutti þanki sem hér fer á eftir vinnur vafalaust ekki vinsældakosningu, en hvað um það.

Staðreyndin er sú að verkföll og þvinguð, veruleg hækkun launa á hinum frjálsa markaði, munu ekki skila launþegum ábata til lengri tíma. Nú skal reynt að skýra þetta í stuttu máli.

Þegar verkalýðsfélög setja fram kröfur um hækkun launa má ætla að slík krafa byggi á því að sækja megi slíka launahækkun í hagnað vinnuveitanda. Í ljósi þeirra umrótstíma sem verið hafa í íslensku efnahagslífi umliðin ár má ætla að þau fyrirtæki sem þó lifðu tímabilið af, séu fjarri því að vera komin í þá stöðu að miklum hagnaði sé úthlutað til eigenda. Þegar af þessari ástæðu er hugmyndin slæm. Þetta er þó ekki aðalatriðið og hugsanlega gengur það upp til skamms tíma eða við einstakar aðstæður að launahækkanir náist á kostnað hagnaðar. Það sem mun þó að öllum líkindum gerast, ef launahækkanir eru þvingaðar fram í fyrirtæki, er að hlutaðeigandi fyrirtæki mætir auknum kostnaði með hækkun verðs á seldri vöru eða þjónustu. Út frá lögmálum hagfræðinnar er raunar sérstaklega líklegt að þetta verði raunin hér á landi, enda fátítt að íslensk fyrirtæki búi við erlenda samkeppni sem getur veitt þeim íslensku verulegt samkeppnislegt aðhald.

Launahækkunum er þannig velt yfir á neytendur, og þessir sömu neytendur eru auðvitað einnig launafólk. Við hækkun á vöru eða þjónustu munu raunlaun því aðeins verða lægri þegar upp er staðið. Heildarmyndin er þó ekki komin við þetta eitt, enda kann hækkandi verð að leiða til samdráttar í sölu og hagnaður hlutaðeigandi fyrirtækja verður minni. Líklegasta afleiðing þessa til lengri tíma er síðan sú að atvinna dregst saman og heildarlaun taka að lækka.

Þrátt fyrir markmið verkalýðshreyfingarinnar um verulega hækkun launa, þá leiðir af fyrrgreindu að slík hækkun, gengi hún eftir, væri aðeins til skamms tíma. Til lengri tíma verður hin endanlega niðurstaða að öllum líkindum önnur. Of margir kjósa því miður að líta fram hjá þessu. Grasið verður því miður ekki grænna hinum megin við þvingaða, launalausa sumarfríið. Það má vonandi hafa það í huga áður en lagt er af stað.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×