Skoðun

Harðlífi stjórnmálanna

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Janúar er tími boðháttar. Gerðu magaæfingar og fáðu mitti eins og Miley Cyrus. Drekktu spínatsafa og fáðu rass eins og Kim Kardashian. Taktu lýsi og fáðu heila eins og Amal Clooney. Downloadaðu Photoshop og fáðu læri eins og Beyoncé. Nýársheitið mitt er að fá leggi eins og Gwyneth Paltrow, barm eins og Jennifer Lawrence og Pulitzer-verðlaunin eins og ... eins og einhver sem hefur fengið Pulitzer-verðlaunin.

Í janúar keppast fjölmiðlar við að hjálpa okkur að strengja og halda nýársheitin með fréttum af megrunarkúrum og lífsstílsábendingum frá fræga fólkinu. Þykir sumum nóg um. Hafa samtök breskra næringarfræðinga tekið sig til og varað við þessum góðu ráðum. Á dögunum gáfu þau út lista yfir heilsufarsráð og megrunarkúra fræga fólksins sem þykja ekki til eftirbreytni og teljast jafnvel skaðleg. Að borða eins og steinaldarmaður eins og leikarinn Matthew McConaughey getur leitt til kalkskorts samkvæmt samtökunum. Að vera grænmetisæta til klukkan sex eins og Beyoncé getur leitt til ofáts á kvöldin. Og nýjasta heilsufarsæðið, að borða matskeið af leir á dag, getur haft ýmsa kvilla í för með sér, allt frá harðlífi til arsenikeitrunar.

En hvatningar um nýársheiti í fjölmiðlum einskorðast ekki við heilsurækt og holdafar eins og lesendur Fréttablaðsins fengu að kynnast í upphafi vikunnar.

Af ýmsum ástæðum

„Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, krefst afsagnar ríkisstjórnarinnar og vill kosningar sem fyrst.“

Eyjan.is – 19. mars, 2010.

„[Sigurður Kári Kristjánsson], þingmaður Sjálfstæðisflokksins, krefst þess að ríkisstjórn Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur segi af sér vegna Icesave-samkomulagsins“

Pressan.is – 11. desember, 2010.

„Verði ekki fallist á skilaboðin frá Alþingi, er ég jafnframt þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin eigi að segja af sér.“

Bjarni Benediktsson, Mbl.is – 29. ágúst, 2009.

„Mér finnst að það væri æskilegt að ráðherrarnir segðu af sér af ýmsum ástæðum.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Fréttir Stöðvar 2 – 10. desember, 210.

Eitt leiðinlegasta tímabil í íslenskum stjórnmálum í seinni tíð að mínu mati er fyrri hluti stjórnartíðar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það hefur þó ekkert með Jóhönnu Sigurðardóttur að gera.

Átök stjórnar og stjórnarandstöðu í kjölfar falls ríkisstjórnar Geirs Haarde minntu á fótboltaleik þar sem annað liðið nennir ekki að hlaupa og stendur bara og hrópar á dómarann: „Rauða spjaldið, dómari, rauða spjaldið.“

Þetta rammfalska og taktlausa afsagnargól stjórnarandstöðuflokka, álíka skemmtilegt og setti skólahljómsveit leikskólans Grænuborgar upp Niflungahring Wagners, hélt ég að hefði liðið undir lok með nýrri stjórnarandstöðu. En skólahljómsveitin er aftur stigin á við.

Manísk óskhyggja

Í upphafi vikunnar kallaði þingkonan Sigríður Ingibjörg Ingadóttir eftir því að nýársheiti Íslendinga fyrir árið 2015 yrði að hrekja ríkisstjórnina frá völdum. Í greininni „Komum þeim frá!“ tínir hún til hinar ýmsu ástæður sem henni þykja kalla á hallarbyltingu. Skattar eru lækkaðir á stóreignafólk og útgerðarmenn. RÚV er rústað. Heilu stofnanirnar eru sendar í útlegð til Skagafjarðar. Forsætisráðherra rífst og skammast.

Allt eru þetta góðar ástæður til að láta ríkisstjórnina fara í taugarnar á sér. Staðreyndin er hins vegar sú að fátt sem ríkisstjórnin hefur gert ætti að koma á óvart. Framsókn sendir stofnanir og bitlinga út á land. Það er það sem Framsókn gerir. Sjálfstæðisflokkurinn lækkar skatta ríkra vina sinna. Það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn gerir.

Að kalla eftir afsögn ríkisstjórnarinnar nú er jafnhæpið og að kalla eftir að ríkisstjórninni sé bylt vegna þess að Sigmundur Davíð sé í svo ljótum skóm. Maníska óskhyggju þarf til að þykjast sjá samsvörun milli ástandsins nú og ástandsins eftir hrun sem leiddi til búsáhaldabyltingarinnar og afsagnar ríkisstjórnar Geirs Haarde.

Þingmenn ættu að virða lýðræðið meira en svo en að kalla stöðugt eftir nýjum kosningum séu þeir sjálfir í tapliðinu. Hallarbylting eins og hvatt var svo kæruleysislega til í Fréttablaðinu í upphafi vikunnar er ekkert grín. Eilífum kosningum og ríkisstjórnaskiptum fylgja óvissa og óstöðugleiki sem fæstir kæra sig um.

Innantóm köll stjórnarandstöðunnar um afsögn ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherra hennar misbjóða vitsmunum kjósenda nú, rétt eins og þegar Bjarni Ben og Sigmundur Davíð kölluðu eftir því að ríkisstjórn Jóhönnu yrði bylt. Nær væri að stjórnarandstaðan kynnti fyrir kjósendum hvað hún hygðist gera öðruvísi kæmist hún til valda eftir lýðræðislegar þingkosningar árið 2016.

Bylting er lýðræðinu eins og leir er meltingarkerfinu: ekkert sérstaklega gagnleg og hugsanlega skaðleg. Hún er harðlífi stjórnmálanna. Ástæða er því til að bæta í boðhátta-flóruna og strengja eftirfarandi nýársheit fyrir árið 2015: Föllum ekki fyrir fúski, hvorki þegar kemur að megrunarkúrum né tækifærismennsku tapsárra stjórnmálamanna.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×