Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Stjarnan 82-58 | Meistararnir úr leik

Styrmir Gauti Fjelsted skrifar
Þorleifur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur.
Þorleifur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur. Vísir/Stefán
Bikarmeistarar Stjörnunnar eru úr leik í Powerade-bikarkeppni karla eftir að hafa tapað fyrir Grindavík suður með sjó í kvöld.

Leikar byrjuðu nokkuð jafnir en um miðjan annan leikhluta stungu heimamenn af og leiddu í hálfleik, 41-24. Grindvíkingar héldu áfram að leika framúrskarandi í seinni hálfleik á meðan algjört andleysi var yfir leik bikarmeistaranna.

Leikurinn byrjaði nokkuð jafn í kvöld en bæði lið voru að hitta fremur illa þrátt fyrir að vera fá opin færi.

 

Þegar átta mínútur voru búnar af fyrsta leikhluta var staðan einungis 13-11 og spurningin var hvort liðið myndi taka á skarið á undan.

 

Heimamenn nýttu sénsinn og enduðu leikhlutan með góðum kafla og leiddu með átta stigum, 22-14, að honum loknum.

 

Erfileikar Stjörnumanna í sókn héldu áfram í öðrum leikhluta á meðan heimamenn voru að spila glimrandi bolta. Gestirnir náðu að minnka muninn niður í 5 stig, 28-23, þegar annar leikhluti var hálfnaður.

 

Í þeirri stöðu tóku Grindvíkingar öll völd og tókst þeim fljótlega að koma muninum upp í 12 stig. Illa gekk hjá gestunum að taka fráköst en Grindavík tók mikið af sóknarfráköstum og leiddu þeir í hálfeik, 41-24.

 

Atkvæðamestir í hálfleik hjá heimamönnum voru þeir Jón Axel með 13 stig og 6 fráköst, Jóhann 8 stig og Eric Wise með 8 stig og 7 fráköst.

 

Hjá gestunum voru þeir Coleman, Shouse og Tómas Heiðar allir komnir með 6 stig en sóknarleikur þeirra bláklæddu var einfaldlega hræðilegur í fyrri hálfleik og mikið andleysi var yfir leik þeirra.

 

Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar tók hressilega hálfleiksræðu yfir sínum mönnum en það virtist litlu skila því þeir mættu ekki nægilega grimmir til leiks í seinni hálfleik því Grindavík hélt áfram að bæta í forskot sitt en þeir voru að fá framlag frá mörgum mönnum í kvöld.

 

Eftir þriðja leikhluta var staðan 59-41 og ljóst var að mikið þyrfti að ganga á til að Stjarnan myndi snúa leiknum sér í vil.

 

Heimamenn héldu áfram sínum leik í seinasta leikhlutanum og sáu til þess að Stjarnan átti aldrei neinn möguleika á því að gera leikinn spennandi.

Grindavík á hrós skilið fyrir leik sinn í kvöld og var spilamennska þeirra í kvöld mikil framför frá síðustu tveim deildarleikjum þeirra.

Frammistaða Stjörnumanna var hins vegar afleitt í kvöld og í raun sorglegt að jafn gott lið mæti svona til leiks í jafn mikilvægum leik.

Jóhann: Leitin heldur áfram

Jóhann Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var hæstánægður í leikslok og þá sérstaklega hvernig hans menn mættu til leiks í kvöld.

 

„Ég er gríðarlega ánægður með hvernig við mættum til leiks í kvöld. Hvernig við náðum að einblína á þá hluti sem við getum stjórnað, hlutir sem við erum búnir að vera fara yfir í allan vetur og tókst okkur að framkvæma þá hluti vel í kvöld. Við mættum tilbúnir til leiks og fannst mér við ná að halda út flottri spilamennsku nánast allan leikinn.“

 

„Það er helling í þessum leik okkar í dag sem hægt er að byggja á og ef við höldum þessu áfram að spila svona þá erum við í flottum málum.“

 

Eric Wise spilaði sinn síðasta leik með Grindvíkingum í kvöld en hann heldur út til Suður-Kóreu á morgun. Jóhann segir að hann sé að skoða útlendingamálin í rólegheitum.

 

„Leitin að nýjum Bandaríkjamanni stendur yfir en það er ekki komin nein niðurstaða í þeim málum ennþá. Það er í rauninni ekkert stress því félagsskiptaglugginn opnar ekki fyrr en 1. janúar svo við spilum síðustu tvo leikina fyrir áramot kanalausir.“

 

Aðspurður hvort búið væri að ráða nýjan aðstoðarþjálfara en Guðmundur Bragason steig til hliðar í liðinni viku þá hafði Jóhann þetta að segja.

 

„Björn Steinar Brynjólfsson ætlar að taka það hlutverk að sér.“

 

Hrafn: Lét heyra í mér

 

Stjörnuþjálfarinn Hrafn Kristjánsson var brúnaþungur í leikslok en frammistaðan hjá hans mönnum í kvöld var vægast sagt léleg.

 

„Það er svosem alltaf möguleiki á því að tapa hérna í Grindavík í bikarleik,“ sagði Hrafn. „Þetta er erfiður völlur heim að sækja en vonbrigðin í kvöld felast í því hvernig við mættum til leiks og að við gáfum þessu í rauninni aldrei séns. Við vorum alls ekki að fara eftir því sem var lagt upp með í upphafi leiks.“

 

„Ég skal alveg viðurkenna að ég lét aðeins í mér heyra í hálfleik og var ég að reyna biðja þá um að gefa þessu séns. Ég skil bara ekki hvernig menn geta litið út fyrir að hafa ekki trú á því sem við erum að leggja upp með þegar það er nýbúið að skila okkur flottum sigrum gegn Njarðvík og Haukum.“

 

Næsti leikur í deild hjá Stjörnunni er gegn Snæfell heima og hafði Hrafn þetta að segja um uppleggið fyrir þann leik.

 

„Ég vil helst leggja sem minnst inn fyrir þann leik og eftir svona leik vona ég að viðbrögðin komi frá leikmönnunum.“



Grindavík-Stjarnan 82-58 (22-14, 19-10, 18-17, 23-17)

Grindavík: Eric Julian Wise 18/9 fráköst/7 stolnir, Jón Axel Guðmundsson 18/11 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 12/8 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 11/9 fráköst/6 stoðsendingar, Páll Axel Vilbergsson 7/6 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 7, Kristófer Breki Gylfason 4, Magnús Már Ellertsson 3, Hilmir Kristjánsson 2, Þorleifur Ólafsson 0/7 fráköst.

Stjarnan: Al'lonzo Coleman 16/13 fráköst, Justin Shouse 11/4 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 11/4 fráköst, Ágúst Angantýsson 9/9 fráköst, Marvin Valdimarsson 5, Sæmundur Valdimarsson 4/6 fráköst/3 varin skot, Brynjar Magnús Friðriksson 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×