Körfubolti

Körfuboltakvöld: Sérfræðingarnir þurftu að gleypa sokk | Myndband

Chris Woods fór á kostum þegar FSu vann mjög svo óvæntan sigur, 100-110, á toppliði Keflavíkur á útivelli í gær en Woods bauð upp á sannkallaða tröllatvennu með 36 stig og 30 fráköst.

Fæstir áttu von á því að FSu sem hafði aðeins unnið einn leik í deildinni gæti strítt toppliði Keflavíkur en annað kom á daginn. Nýliðarnir gerðu sér lítið fyrir og sóttu tvö stig til Keflavíkur.

Woods sem gekk nýlega til liðs við FSu átti sannkallaðan stórleik í gær og fékk að launum jólakúlu merkta sér í þættinum Körfuboltakvöld en sérfræðingar þáttsins fengu sokk sendann til þess að borða eftir að hafa gagnrýnt FSu fyrir að næla í Woods á dögunum.

„Orðatiltækið þegar skrattinn hittir ömmu sína á vel við þennan leik. Þeir tóku leikstíl Keflvíkinga og léku sama leikstíl og gera það bara betur í Keflavík,“ sagði Kristinn G. Friðriksson, annar sérfræðinganna í gær og Fannar Halldórsson tók í sama streng.

„FSu er búið að vera grátlega nálægt því að vinna nokkra leiki á liðsheildinni og núna eru þeir komnir með lítið púsl sem þú setur inn og þeir geta farið að vinna leiki. Þeir vinna Keflavík, í Keflavík. Hvað er í gangi?,“ sagði Fannar en innslagið má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×