Tíska og hönnun

Sér fram á að eignast úlpu í fyrsta sinn í mörg ár

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Guðmundur er að vonum ánægður með samstarfið og segir það hafa verið viss tilbrigði að einblína á eina flík.
Guðmundur er að vonum ánægður með samstarfið og segir það hafa verið viss tilbrigði að einblína á eina flík. Vísir/AntonBrink
„Þetta virkar hrikalega vel, ég sé fram á að ég muni eignast úlpu í fyrsta skipti í mörg ár. Hún er líka svo létt í vigt að hún er góð bara tíu mánuði ársins ef tekið er mið af veðrinu hér,“ segir fatahönnuðurinn Guðmundur Jörundsson hress um úlpuna Jöræfi Prima sem er afrakstur hönnunarteymis JÖR og hönnunar- og framleiðsludeildar 66°Norður.

Hugmyndin að samstarfinu kviknaði innan herbúða Jör fyrir rúmu einu og hálfu ári og þá var hafist handa við að kasta hugmyndum á milli. 

Mynd/MagnúsUnnar
„Við vorum fyrst að spá í að gera línu en svo vorum við sammála um að gera frekar fókuserað samstarf.“

Útkoman varð Jöræfi Prima, útgáfa af húfukollunni sem hlýjað hefur fjölmörgum um höfuðið auk vatnshelds poka og segir Guðmundur að ekki sé útilokað að frekara samstarf verði á milli JÖR og fyrirtækisins ef afurðirnar mælist vel fyrir, hann sé þó ánægður núna með að hafa getað einbeitt sér að úlpunni.

„Ég var líka bara sérlega ánægður með það eftir á að hyggja, það er náttúrulega bara sturluð vinna að gera svona tæknilegar flíkur, miklu fleiri hindranir,“ segir hann og bætir við að það hafi vissulega verið ákveðin tilbreyting í því að einblína á eina flík þar sem hann og teymið séu vanari því að hugsa í heilum fatalínum.

„Við náttúrulega störfum þannig að við hugsum ekki í einni flík í einu þannig að það er gaman að fá að fókusera bara á eina í einu. Maður er alltaf að hugsa um hundrað í einu fyrir heila línu. Þannig að það var gaman að geta sökkt sér svona í þetta.“ 

Mynd/MagnúsUnnar
Guðmundur segir að ekki sé loku fyrir það skotið að JÖR fari í samstarf við fleiri vörumerki, það sé í senn lærdómsríkt og skemmtilegt.

„Það er hrikalega skemmtilegt og inspírerandi. Maður fær nýtt perspektíf og lærir alveg helling af því. Við höfum verið í samstarfi með Halla Jóns myndlistarmanni, það er náttúrulega allt öðruvísi og verður eflaust meira af því.“

Nafnið vekur óneitanlega athygli og er Guðmundur fljótur til svars þegar hann er spurður að því hvort það hafi legið beint við:

„Það kom nú bara allt í einu, ég trúi eiginlega ekki að þetta hafi verið samþykkt. En það voru allir á því að þetta væri nafnið,“ segir hann hlæjandi og bætir við: „Þetta hljómar svona eins og einhver staður eða eyja, mitt á milli Jör og 66°Norður.“

Jöræfi kemur til þess að byrja með aðeins í takmörkuðu upplagi og verður samstarfið frumsýnt klukkan 17.00 í verslun 66°Norður í Bankastræti. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×