Þjóðverjar munu leggja til flugvélar og herskip í baráttunni gegn ISIS eftir að Frakkar báðu þá sérstaklega um það.
Þýski herinn mun senda eftirlitsflugvélar, eldsneytisflugvélar og herskip í nágrenni Sýrlands til þess að styðja við loftárásir Frakklands, Bandaríkjanna og annarra bandamanna en Þjóðverjar munu ekki hefja loftárásir á ISIS í Sýrlandi.
Stuðningur þessi er stefnubreyting að hálfu þýskra yfirvalda sem hafa hingað til ekki viljað taka þátt í aðgerðum gegn ISIS í Sýrlandi með beinum hætti.
„Í dag tók ríkisstjórnin erfiða en bæði nauðsynlega og mikilvæga ákvörðun,“ sagði Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands. „Við stöndum með Frakklandi.“
Angela Merkel Þýskalandskanslari lofaði slíkum stuðning á fundi með Francois Hollande Frakklandsforseta en þýska þingið þarf þó að samþykkja áætlun þýskra yfirvalda.
Líklegt þykir að þýski herinn muni senda fjórar til sex eftirlitsflugvélar, eldsneytisflugvélar og herskip til verndar franska flugmóðurskipinu Charles de Gaulle sem sem leikur lykilhlutverk í loftárásum Frakka á ISIS.
