Innlent

Segir spítalalekann ótrúlegt óhæfuverk

Snærós Sindradóttir skrifar
Birgitta Jónsdóttir vill svör um lekann á Landspítalanum.
Birgitta Jónsdóttir vill svör um lekann á Landspítalanum. vísir/valli
„Maður hefði haldið að enginn trúnaður væri eins mikilvægur og trúnaður á milli þeirra sem sækja þjónustu hjá Landspítalanum eða öðrum stofnunum sem halda utan um heilbrigði landsmanna og þessara stofnana,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í óundirbúinni fyrirspurn til Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra á Alþingi í gær.

Fyrirspurnin vísar til umfjöllunar Fréttablaðsins um víetnömsk hjón sem hafa kært leka Landspítalans á trúnaðarupplýsingum til Persónuverndar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var það félagsráðgjafi á Landspítalanum sem gaf Útlendingastofnun upplýsingarnar.

„Ég held að viðbrögð við þessu ótrúlega óhæfuverki hefðu verið allt önnur ef um Íslendinga hefði verið að ræða, ef ung alíslensk hjón hefðu þurft að fara í gegnum ástarlögregluna og trúnaðarupplýsingum hefði verið lekið frá félagsráðgjafa á Landspítalanum,“ sagði Birgitta jafnframt.

Kristján Þór sagði lekann ekki í lagi. Ekkert í mannlegu valdi geti þó komið í veg fyrir slíkt slys ef einbeittur brotavilji sé til staðar. Hann fer fram á að niðurstaða á rannsókn spítalans á lekanum verði kynnt honum og ráðuneytinu. „Ég vil af þessu tilefni upplýsa að ég geri ráð fyrir því og ætlast raunar til þess að stjórnendur spítalans, þegar rannsókn máls sem þessa lýkur, nýti þau úrræði allra laga og reglna sem um þessi mál fjalla og beiti þeim ef ástæða er til,“ sagði Kristján Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×