Íslenski boltinn

Fyrsta fullkomna ár stelpnanna í 22 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Björk Kristjánsdóttir er fastamaður í íslenska liðinu.
Anna Björk Kristjánsdóttir er fastamaður í íslenska liðinu. Vísir/Vilhelm
Íslenska kvennalandsliðið vann sannfærandi 6-0 sigur í Slóveníu í undankeppni EM 2017 í gærkvöldi og er í efsta sæti síns riðils.

Íslensku stelpurnar hafa unnið þrjá fyrstu leiki sína með markatölunni 12-0 og hafa ekki byrjað undankeppni jafnvel í átta ár eða síðan í undankeppni EM 2009.

Íslenska liðið vann alla þrjá keppnisleiki sína á árinu 2015 því liðið spilaði ekki aðra alvöru leiki en þessa þrjá í undankeppni EM í haust.

Þetta er fyrsta fullkomna ár íslensku stelpnanna í 22 ár eða síðan að liðið vann eina keppnisleik sinn árið 1993.

Íslenska liðið mætti þá Hollandi á Laugardalsvellinum í lok september og fagnaði 2-1 sigri.

Guðrún Sæmundsdóttir kom Íslandi í 1-0 með marki beint úr aukaspyrnu á 11. mínútu og Ásta B. Gunnlaugsdóttir skoraði síðan sigurmarkið á 86. mínútu eftir hornspyrnu Margrétar Ólafsdóttur.

Íslenska liðið komst nálægt því að ná fullu húsi í keppnisleikjum sínum árið 2011 en aðeins markalaust jafntefli í heimaleik á móti Belgíu kom í veg fyrir það. Allir hinir fjórir leikirnir unnust.

Þessi þrjú ár, 1993, 2011 og 2015, eru jafnframt einu árin þar sem íslenska kvennalandsliðið hefur ekki tapað keppnisleik frá því að liðið hóf þátttöku í undankeppnum HM og EM.

Íslenska liðið vann fyrst 2-0 sigur á Hvíta-Rússlandi á Laugardalsvellinum og fylgdi því síðan eftir með sex stiga ferð á Balkanskagann þar sem stelpurnar unnu 4-0 sigur í Makedóníu og 6-0 sigur í Slóveníu.


Tengdar fréttir

Helst algengt hjá konum yfir sextugu og knattspyrnukonum

Ísland er í góðum málum eftir 6-0 sigur á Slóveníu ytra í undankeppni EM 2017 í gær. Harpa Þorsteinsdóttir átti stórleik en íslenska liðið yfirspilaði lið Slóveníu á löngum köflum í leiknum.

Harpa: Skora úr næsta víti

Harpa Þorsteinsdóttir átti stórleik fyrir Ísland í kvöld en var óheppinn að skora ekki þrennu.

Freyr: Stoltur af þeim

Landsliðsþjálfarinn var í sjöunda himni með 6-0 sigur Íslands á Slóveníu í undankeppni EM 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×