Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu, hefur engar áhyggjur af því að Kári Árnason verði ekki klár í slaginn gegn Tyrkjum á þriðjudag. Kári haltraði af velli í fyrri hálfleik í 2-2 jafnteflinu gegn Lettum á Laugardalsvelli í kvöld.
„Kári verður með. Hann lendir í höndunum á Stefáni (Hafþór Stefánssyni, sjúkraþjálfara) og hann reddar þessu,“ sagði Heimir og upplýsti að Kári hefði fengið slink á bakið.
„Stebbi segir að þetta verð ekkert mál.“
Jón Daði Böðvarsson var ekki til taks í dag en hann fékk högg á hnéð á dögunum og æfði ekki með landsliðinu í vikunni.
„Það var meiri varkárni með hann. Ég vona að hann verði klár. Þetta eru þannig meiðsli að þau skemma ekkert fyrir honum í framhaldinu,“ sagði Heimir. Þeir Lars séu ekki hræddir við að spila honum á þriðjudaginn í Tyrklandi.
Kári verður með gegn Tyrkjum
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
