Erlent

Erdogan fundar með fulltrúum ESB um flóttamannamál

Atli Ísleifsson skrifar
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, tekur á móti Recep Tayyip Erdogan í Brussel í morgun.
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, tekur á móti Recep Tayyip Erdogan í Brussel í morgun. Vísir/AFP
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, fundar með fulltrúum Evrópusambandsins um málefni flóttamanna og baráttuna gegn ISIS í Brussel í dag.

Í frétt BBC kemur fram að aðildarríki ESB hafi þrýst á tyrknesk stjórnvöld að stemma stigu við straum flóttafólks til Evrópu. Erdogan hóf tveggja daga heimsókn sína til Brussel í morgun.

Um tvær milljónir sýrlenskra flóttamanna eru nú í Tyrklandi og hafa yfirvöld þar í landi reynt að hlúa að þeim, en stór hluti þeirra flóttamanna sem halda til Evrópu fara um Tyrkland.

Búist er við að ESB muni leggja til fé til stuðnings aðgerða Tyrklandsstjórnar sem vinnur nú að því að koma upp fleiri flóttamannabúðum í landinu.

Erdogan segir að Tyrkir hafi þegar lagt um átta milljarða Bandaríkjadala í málefni flóttafólks, og fengið innan við 500 milljóna dala fjárhagsaðstoð frá ESB. Segir hann að Tyrkir hafi kennt ESB lexíu í manngæsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×