Íslenski boltinn

Haukur Ingi: Allir þurfa að líta í eigin barm

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Ingi Guðnason.
Haukur Ingi Guðnason. vísir/valli
"Mér fannst frammistaðan alls ekki góð. Ég er mjög vonsvikinn með spilamennsku liðsins nánast frá A-Ö," sagði hreinskilinn Haukur Ingi Guðnason, þjálfari Keflavíkur, við Vísi eftir leik.

Keflavík vissi fyrir leikinn að ekkert annað en sigur myndi halda Pepsi-draumum liðsins á lífi, en liðið er nú ellefu stigum frá öruggu sæti þegar tólf stig eru eftir í pottinum.

"Maður skyldi ætla fyrir svona mikilvæga leiki að leikmenn þyrftu ekki mikla hvatningu. Menn eiga að vera á tánum og tilbúnir að leggja líf og limi í svona mikilvæga leiki," sagði Haukur.

"Af einhverjum ástæðum var bara deyfð yfir okkar mönnum frá fyrstu mínútu og við vorum í raun heppnir að vera ekki 2-0 undir eftir tíu mínútur. Maður er svona svekktastur með það."

Haukur Ingi er uppalinn Keflvíkingur og er nú að stýra skútunni niður um deild. Hvernig er að horfa upp á svona frammistöðu í jafn mikilvægum leik?

"Það er bara gífurlega erfitt. Ég held að allir inni séu gífurlega svekktir. Þetta er mjög erfitt en svona er staðan. Af einhverjum ástæðum náðum við ekki að smella í dag. Það er eitthvað sem við þurfum að rýna í, og ekkert bara fyrir næsta leik heldur almennt fyrir knattspyrnuna hjá Keflavík og þá leikmenn sem spila fyrir félagið," sagði hann.

"Við þurfum að vita hvað veldur því að leikmenn leggi ekki meira á sig í svona leik. Við þjálfararnir þurfum líka að skoða okkar hlut og allir sem að þessu koma. Við þurfum að vita hvort við lögðum leikinn rangt upp eða bara hvað má betur fara."

Ekki einu sinni í seinni hálfleik, 2-0 undir, komu Keflvíkingar brjálaðir til leiks. Þeir lögðust bara undir Eyjalestina og létu keyra yfir sig.

"Það var eitthvað vonleysi yfir mönnum þegar við náðum ekki að skora fljótlega í fyrri hálfleik þar sem mér fannst við eiga tilkall til vítaspyrnu. En það verður líka að hrósa ÍBV. Þetta var ekki bara nægilega gott hjá okkur heldur spilaði ÍBV þétt og Eyjaliðið lagði sig allt í verkefnið," sagði Haukur Ingi.

Keflavík á nú fjóra leiki eftir í Pepsi-deildinni en nánast er öruggt að liðið spilar í 1. deild á næstu leiktíð. Hvernig verður lokahluti mótsins tæklaður hjá Keflavík?

"Við byrjum á því að hugsa um næsta leik. Nú þurfum við allir, leikmenn og þjálfarar, að líta í eigin barm. Við þurfum allir að velta því fyrir okkur hvað við getum gert til að bæta almennt leik liðsins," sagði Haukur Ingi.

"Leikur liðsins hefur verið mjög sveiflukenndur og sveiflurnar eru öfgakenndar. Það sem lýsir tímabilinu okkar hvað best er að við töpum 7-1 fyrir Víkingi í leik þar sem við vorum betri í 65 mínútur. Við þurfum að skoða hvernig við getum gert liðið betra og skilvirkara," sagði Haukur Ingi Guðnason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×