Viðskipti innlent

Heiðar Már: Kínverska hrunið þýðir lítið fyrir Ísland

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Þetta þýðir nú ekki mikið fyrir okkur þar sem við núllstilltum okkar kerfi fyrir um fimm árum,“ segir hagfræðingurinn og fjárfestirinn Heiðar Már Guðjónsson en hann var gestur Sigurjóns M. Egilssonar og Heimis Karlssonar í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Undanfarin ár hefur verið talsverður vöxtur á fjármálamörkuðum og verð á hlutabréfum hefur hækkað þrátt fyrir að hægt hafi á efnahagnum sjálfum. Því hafi verið talsverður munur á milli raunverulegrar stöðu og hagnaðar. Heiðar Már segir að við þurfum ekki að hafa áhyggjur hér á landi nema fallið fari að hafa áhrif á raunhagkerfi heimsins.

„Þetta hefur gerst oft áður að markaðir fara fram úr sjálfum sér. Græðgi fólks kemur hægt og rólega og stigmagnast meðan hræðslan við tap kemur skyndilega. Því eru leiðréttingar á mörkuðum svona rosalega skarpar.“

Heiðar Már segir að í þessu öllu saman hafi verið áhugavert að fylgjast með evrunni en hún hefur styrkst mjög mikið líkt og dollarinn.

„Evran er í raun hið nýja yen,“ segir hann. Vísar hann til þess að frá hruninu í Japan árið 1989 hafi menn litið á framtíðarhorfur Japans með eilitlum efasemdum og að þar sé lítið að gerast. Yenið verði lágvaxtamynt um ókomna framtíð.

„Mig grunar að þannig hafi menn horft aðeins á evruna þannig að það sé gott að taka lán í henni. Ef það kemur skyndilegt högg, og menn skulda í lágvaxtamynt á borð við evru, þá þurfa menn að græja það í einni svipan. Kaupa gjaldeyri og borga skuldina. Það þýðir að evran styrkist sem er í raun það síðasta sem hún þarf,“ segir Heiðar.

Samkvæmt Heiðari ætti hrunið að hafa lítil áhrif á Ísland en gæti haft einna mest áhrif á ríki á borð við Þýskalands þar sem stór hluti framleiðsluaukningar landsins hefur verið seldur til Kína. Einnig verði forvitnilegt að sjá hvaða áhrif þetta hefur á lönd á borð við Nýja Sjáland og Ástralíu sem hafa stundað viðskipti við Kína í auknum mæli á undanförnum árum.

Viðtal Heimis og Sigurjóns við Heiðar má heyra í spilaranum sem er hér í fréttinni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×