Íslenski boltinn

Guðmann hugsanlega úr leik 

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmann Þórisson í leik með FH á móti KR.
Guðmann Þórisson í leik með FH á móti KR. Vísir/Andri Marinó
Það hafa verið vandræði á varnarmönnum FH í sumar vegna meiðsla og sér ekki fyrir endann á þeim. Tímabilið er hugsanlega búið hjá Guðmanni Þórissyni en hann hefur verið einkar óheppinn með meiðsli í sumar og aðeins tekið þátt í fimm deildarleikjum með FH.

"Það kemur í ljós eftir landsleikjahléð hvort hann verði meira með okkur. Það gæti vel verið að hann sé búinn að spila sinn síðasta leik með okkur í sumar en við vonum samt það besta," segir Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.

Annar af miðvörðum liðsins, Kassim Doumbia, hefur einnig misst af nokkrum leikjum vegna meiðsla. Hann er aftur á móti orðinn klár í slaginn.

Það er aftur á móti áhugavert að FH hefur aðeins fengið á sig fimm mörk í sjö leikjum án Doumbia. Er Doumbia var í liðinu var FH að fá á sig 1,4 mörk að meðaltali í leik en án hans er FH aðeins að fá á sig 0,7 mörk í leik. Fjórum sinnum hefur FH haldið hreinu í sumar og Doumbia var aðeins með í einum þeirra leikja.

"Hann var með beinmar í ökklanum en er orðinn góður. Hann mun klárlega styrkja okkur mikið á lokasprettinum enda frábær leikmaður," segir Heimir.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×