Hópur vígamanna sem aðhyllast hryðjuverkasamtökunum Íslamskt ríki birtu í dag myndir sem sýna lík gísls sem samtökin voru með í haldi í Egyptalandi. Tomislav Salopek var frá Króatíu og var í Egyptalandi vegna vinnu sinnar þegar honum var rænt fyrir þremur vikum.
Yfirvöld í Króatíu hafa ekki staðfest að Salopek hafi verið myrtur en óttast að myndin hafi verið ófölsuð. Á myndinni má sjá hvernig höfði hans hefur verið stillt upp á skrokk hans við hliðina á fána ISIS og hníf. Myndin var birt á Twitter af aðilum sem tengjast samtökum sem kalla sig Sinai Province, en meðlimir þeirra samtaka hafa lýst sig hliðholla Íslamska ríkinu.
Við myndina stóð að Salopek hafi dáið vegna þátttöku Króatíu í baráttunni gegn Íslamska ríkinu. Samtökin höfðu, samkvæmt BBC, áður hótað að myrða Salopek ef kvenkyns fanga yrði ekki sleppt úr fangelsi í Egyptalandi.
Zoran Milanovic, forsætisráðherra Króatíu, ávarpaði þjóðina í dag og sagði hann að yfirvöld gætu ekki staðfest fregnirnar með „hundrað prósent vissu“. Þar að auki sagði hann að mögulega væri ekki hægt að staðfesta andlát Salopek. Útlitið væri hins vegar ekki gott. „Ég óttast hið versta.“
Erlent