Íslenski boltinn

Erlendur dæmir tvo stórleiki á þremur dögum

Erlendur Eiríksson með spreybrúsann á Laugardalsvelli í gær.
Erlendur Eiríksson með spreybrúsann á Laugardalsvelli í gær. Vísir/Anton Brink
Knattspyrnudómarinn Erlendur Eiríksson fær heldur betur stór verkefni frá dómaranefnd KSÍ þessa dagana en hann dæmdi bikarúrslitaleikinn á Laugardalsvellinum í gær og dæmir síðan stórleik 16. umferðar Pepsi-deildarinnar í Kaplakrika á morgun.

Valur vann 2-0 sigur á KR í bikarúrslitaleiknum í gær og dæmdi Erlendur leikinn mjög vel. Aðstoðardómarar hans voru þeir Jóhann Gunnar Guðmundsson og Frosti Viðar Gunnarsson en fjórði dómari var síðan Garðar Örn Hinriksson.

Erlendur dæmir síðan leik toppliðs FH og Íslandsmeistara Stjörnunnar í Kaplakrikavelli annað kvöld en liðin mættust einmitt á sama stað í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í lokaumferðinni í fyrra.

Gylfi Már Sigurðsson og Bryngeir Valdimarsson verða aðstoðardómarar Erlends í Krikanum á morgun og fjórði dómari er síðan Valgeir Valgeirsson.

Báðir leikirnir eru sjónvarpsleikir en leikur FH og Stjörnunnar sem hefst klukkan 18.30 verður í beinni á Stöð 2 Sport.

FH hefur reyndar þrettán stigum meira en Stjarnan eftir fyrstu fimmtán umferðir Pepsi-deildarinnar en spennustigið verður eflaust hátt í Kaplakrika enda enginn búinn að gleyma því hvernig þetta fór allt saman í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×