Íslenski boltinn

Freyr: Líður mjög illa yfir þessu ráni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir
„Mér líður mjög illa yfir þessu ráni. Ég hefði ekki dæmt víti á þetta,“ sagði Freyr Alexandersson, annar þjálfara Leiknis, eftir 1-1 jafnteflið gegn Víkingum í kvöld.

Leiknir komst yfir á 88. mínútu en Víkingur jafnaði metin úr umdeildri vítaspyrnu sem var dæmd á þriðju mínútu uppbótartíma leiksins.

„Þetta var barningur inni í teig. Við vorum lengi að koma boltanum frá og hann berst fyrir framan Dofra. Þetta var bara barátta um boltann - 50/50 barátta og mögulega átti að koma horn úr þessu. Ekki víti en hann dæmdi það.“

Freyr vildi ekkert meira ræða um dómgæslu Þórodds Hjaltalíns í leiknum.

„Ég hvet ykkur og sérfræðinga Pepsi-markanna að skoða atvikin okkar. Þið vitið um hvað ég er að tala. Þetta sást langar leiðir og ég vil ekki tala um þetta.“

Danny Schreurs fékk dauðafæri í fyrri hálfleik sem hann nýtti ekki og Freyr segir það óásættanlegt.

„Hann er inni í markteig og markvörðurinn liggur. Ég er gríðarlega ósáttur við þá ákvörðun sem hann tekur þar. Það var óásættanlegt.“

Leiknir gerði tvöfalda skiptingi á 65. mínútu og setti tvo menn fram í sókn. Eftir það tóku Víkingar völdin í leiknum þar til að Breiðhyltingar náðu að jafna metin á 88. mínútu.

„Tíu mínútum áður en við gerum breytinguna missum við tökin á miðjunni. Við settum tvo framherja inn og breyttum um stíl. Það gekk, við komumst í 1-0 og því gekk þetta vel. En því miður endaði þetta í 1-1.“

Hann segir það svekkjandi að upplifa mótlæti í hverjum leik og segir ljóst að Leiknir þurfi að safna fleiri stigum.

„Við þurfum líklega að ná 22 stigum til að halda okkur uppi. Hér áttum við að fá þrjú stig en fengum ekki. Baráttan verður erfið en við vitum nákvæmlega hvað þarf að gera til að ná því. Við trúum því líka að það muni eitthvað að falla með okkur. Við getum ekki vælt yfir þessu stanslaust og verðum að trúa því að réttlætið sigri á endanum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×