Innlent

Þýskur þingmaður tekur tvo flóttamenn inn á heimili sitt

Atli Ísleifsson skrifar
Patzelt kynntist þeim Haben og Awat í kaþólskri kirkju í bænum og bauð þeim síðar að dvelja á heimili sínu á meðan þeir væru að koma undir sér fótunum í Þýskalandi.
Patzelt kynntist þeim Haben og Awat í kaþólskri kirkju í bænum og bauð þeim síðar að dvelja á heimili sínu á meðan þeir væru að koma undir sér fótunum í Þýskalandi. Vísir/martin-patzelt.de
Þýski þingmaðurinn Martin Patzelt hefur leyft tveimur erítreskum flóttamönnum að dvelja á heimili sínu í mánuð og aðstoðað þá við að finna störf.

Í frétt BBC segir að Patzelt, sem er samflokksmaður Angelu Merkel kanslara, búi í bæ skammt frá Frankfurt við ána Oder í austurhluta Þýskalands. Segir hann að með þessu sé hann að leggja sitt að mörkum til að draga út hatri og klofningi í samfélaginu.

Þýska blaðið Die Welt segir frá því að Erítreumennirnir Haben, 19 ára, og Awet, 24 ára, hafi dvalið á heimili Patzelt í bænum Briesen í mánuð. Deili þeir efstu hæðinni með tveimur sonum Patzelt.

Patzelt kynntist þeim Haben og Awat í kaþólskri kirkju í bænum og bauð þeim síðar að dvelja á heimili sínu á meðan þeir væru að koma undir sér fótunum í Þýskalandi.

Segir að þeir ræði saman á ensku en að Erítreumennirnir stundi nú þýskunám. Þökk sé aðstoð Patzelt er annar þeirra nú kominn með tímabundna vinnu hjá sveitarfélaginu en hinn starfar í matvöruverslun.

Fjölmargir Erítreumenn hafa flúið heimaland sitt á síðustu árum og hafa margir leitað til Evrópu í leit að betra lífi.

Málefni flóttafólks hafa mikið verið í deiglunni síðustu misserin þar sem aðildarríki Evrópusambandsins hafa deilt um hvernig skuli deila álaginu vegna þess mikla fjölda flóttafólks sem leitar til Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×