Ríkið ákvarði ekki lengur launin
„Við erum ekki búin að stofna félag, en við erum á byrjunarstigi,“ segir Sóley. „Við erum að skoða grundvöllinn fyrir svona stofnun, þar sem við myndum bara selja okkur út.“
Sóley segir verkefnið skammt á veg komið. Enn eigi eftir að skoða ýmsar lagalegar hliðar á slíkri sjálfseignarstofnun en hópurinn sjái fyrir sér einhvers konar samstarf við Landspítalann frekar en að stofna eigin starfsstöðvar.
Sjá einnig: Bálreiðir hjúkrunarfræðingar ætla að standa við uppsagnir
„Spítalinn myndi leigja hjúkrunarfræðinga út á okkar taxta. Þannig að ríkið myndi ekki ákvarða okkar laun lengur,“ útskýrir hún. „Það er helsta hugmyndin í þessu, að vera ekki kúguð af karlmönnum í stjórnmálum hvað varðar launin okkar.“
Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum sagði í kvöldfréttum Stöðvar tvö það ekki vera heildarlausn að bregðast við fjöldauppsögnum hjúkrunarfræðinga með erlendu vinnuafli. Sjá má innslagið hér að neðan.
„Þetta verður eignarhaldsfélag okkar hjúkrunarfræðinga og allir munu hafa áhrif,“ segir Sóley. „Allir eru vel af vilja gerðir að sinna sínum störfum hér á landi en kaup og kjör eru ekki boðleg. Allir eru tilbúnir að leggja sína krafta og vinnu við að koma þessu á legg.“
Þarf að vinnast hratt
Næstu skref verða tekin á fundi snemma í næstu viku, að sögn Sóleyjar. Hendur munu þurfa að standa fram úr ermum, enda munu fjöldauppsagnir hjúkrunarfræðinga taka gildi í byrjun október og mun það hafa grafalvarlegar afleiðingar á starfsemi Landspítalans.
Sjá einnig: Gjörgæslan verður óstarfhæf 1. október
„Þetta þarf að vinnast hratt,“ segir Sóley, og ítrekar það að hjúkrunarfræðingar landsins séu komnir með meira en nóg af núverandi ástandi. Mikilvægt sé að fólk geri sér grein fyrir því hversu erfitt starf hjúkrunarfræðinga er.
„Við erum undir allskonar álagi. Ég lenti í því nýverið að ég var í miðjum umbúnaði á líki á krabbameinslækningadeild þegar ég fékk að vita að barnið mitt hefði slasast á leikskóla. Ég gat ekkert farið og sinnt því. Þannig að það er ýmislegt ófyrirsjáanlegt sem við þurfum að taka að okkur sem er ekki metið okkur til tekna.“