Fótbolti

Þjálfari Celtic: Við eigum að vinna Stjörnuna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
John Kennedy yst á myndinni að fagna Skotlandsmeistaratitlinum með Ronny Deila og þjálfaraliði Celtic.
John Kennedy yst á myndinni að fagna Skotlandsmeistaratitlinum með Ronny Deila og þjálfaraliði Celtic. vísir/getty
Eins og kom fram fyrr í dag mæta Skotlandsmeistarar Celtic aftur til Íslands í sumar, en þeir drógust gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar í annarri umferð forkeppni Meistaradeildarinnar.

Stjarnan vakti mikla athygli í fyrra þegar liðið komst alla leið í umspil um sæti í Evrópudeildinni, en á leiðinni þangað vann það Motherwell frá Skotlandi í tveimur leikjum.

„Stjarnan er ekki á sama stað og hún var í fyrra sé litið á töfluna. Þetta er samt leikur sem við þurfum að passa okkur á og við verðum að vinna heimavinnuna okkar,“ segir John Kennedy, einn af þjálfurum liðsins, í viðtali við BBC.

„Við vitum meira um liðið því það spilaði við Motherwell, en það er langt síðan og hlutirnir hafa breyst.“

„Stjarnan er búin að tapa nokkrum leikjum og virðist ekki vera í sama formi og á síðustu leiktíð.“

Fyrri leikurinn fer fram í Glasgow 14. eða 15. júlí og seinni leikurinn viku síðar í Garðabæ.

„Við erum með mikil gæði í okkar liði og miðað við stærð félagsins eigum við að vinna Stjörnuna. Pressan er á okkur og kannski hentar það þeim vel að koma hingað sem litla liðið og gefa allt í þetta,“ segir John Kennedy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×