Skoðun

Öruggt heilbrigðiskerfi til frambúðar er hagur allra landsmanna

Rut Sigurjónsdóttir skrifar
Hjúkrunarfræðingar sem starfa hjá ríkinu hafa nú verið í verkfalli í vel á þriðju viku og engin lausn virðist vera í sjónmáli í kjaradeilu milli þeirra og ríkisins. Nokkrir fundir hafa þó verið boðaðir til að reyna leita lausna og sátta en ríkið virðist hafa takmarkaðan vilja til þess að semja við þessa gríðarmikilvægu og ómissandi heilbrigðisstétt.

Frá því að verkfall hjúkrunarfræðinga hófst hefur dregið verulega úr venjulegri starfsemi heilbrigðisþjónustunar, þá sérstaklega á Landspítala háskólasjúkrahúsi. sem og á heilsugæslustöðvum höfuðborgasvæðisins. Afleiðingar verkfallsins hafa haft í för með sér verulega skerta heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn alla.

Flestir landsmenn vilja búa við öryggi og eitt af því sem veitir okkur öryggi er að vita til þess að við getum leitað til heilbrigðisþjónustunnar þegar veikindi steðja að. Hornsteinn hjúkrunar og heilbrigðisþjónustunnar felst í því tryggja öryggi allra sjúklinga. Með því er átt við að sjúklingur sé laus við tilviljanakennd og ónauðsynleg slys, atvik eða mistök. Eins og staðan er í dag þá getur hvorki heilbrigðiskerfið né hjúkrunarfræðingar með góðu móti tryggt öryggi allra sjúklinga sinna.

Um leið þarf að bæta kjörin. Sömu rök eiga við um hjúkrunarfræðinga og lækna að hér er um að ræða langskólamenntað vinnuafl sem býr við góð atvinnutækifæri erlendis og spurn eftir slíku vinnuafli er umtalsverð nú um stundir. Því er nauðsynlegt að menntun hjúkrunarfræðinga verði metin til launa líkt og hjá öðrum háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum með sambærilega menntun. Stétt hjúkrunarfræðinga hefur löngum verið kvennastétt og nú berjumst við einnig fyrir því að kynbundnum launamuni verði útrýmt í eitt skipti fyrir öll.

Það er von mín að ráðamenn þjóðarinnar geri sér grein fyrir þeirri grafalvarlegu stöðu sem komin er upp í heilbrigðiskerfinu. Landsmenn eiga rétt á því að heilbrigðiskerfið sé sett í forgang og því er bráðnauðsynlegt að semja við hjúkrunarfræðinga sem allra fyrst svo hægt verði að tryggja betur öryggi sjúklinga og koma í veg fyrir að heilbrigðiskerfið verði fyrir auknum skaða.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×