Íslenski boltinn

Heldur Pedersen áfram að skora?

Daninn Patrick Pedersen hefur verið sjóðheitur og skorað 7 mörk í síðustu 4 leikjum Vals.
Daninn Patrick Pedersen hefur verið sjóðheitur og skorað 7 mörk í síðustu 4 leikjum Vals. vísir/stefán
Þrír leikir fara fram í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag þegar 8. umferð hefst. Umferðinni lýkur á morgun með þremur leikjum.

ÍBV fær topplið FH í heimsókn á Hásteinsvöll í Vestmannaeyjum kl. 17:00. ÍBV er í næst neðsta sæti deildarinnar og gæti eflaust hugsað sér auðveldara verkefni en að takast á við FH-inga.

ÍBV hefur ekki unnið FH í fjögur ár. Sá sigur kom 10. júlí 2011 þegar ÍBV vann 3-1 sigur á Hásteinsvelli. Tryggvi Guðmundsson, núverandi aðstoðarþjálfari ÍBV, skoraði eitt marka Eyjamanna í þeim leik.

Neðsta lið deildarinnar, Keflavík, fær sjóðheita Valsmenn í heimsókn í Bítlabæinn. Keflvíkingar unnu sinn fyrsta sigur í síðustu umferð á meðan Valsmenn hafa unnið KR og Fylki í síðustu tveimur leikjum sínum.

Markatala Vals í síðustu þremur deildarleikjum er 9-3. Valur hefur skorað þrjú mörk í síðustu þremur leikjum sínum og þar hefur Daninn Patrick Pedersen farið mikinn. En Pedersen hefur skorað fjögur mörk í síðustu þremur deildarleikjum og sjö mörk í síðustu fjórum leikjum, sé bikarleikurinn við Selfoss talinn með.

Þá fær Breiðablik lánlausa Víkinga í heimsókn í Kópavog. Breiðablik er eina taplausa lið deildarinnar og situr í 2. sæti með 15 stig. Víkingar hafa hins vegar ekki unnið leik síðan í fyrstu umferð og tapað síðustu þremur deildarleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×