Innlent

„Það er alltaf eitthvað verið að krota og krassa á hana“

Birgir Olgeirsson skrifar
Þessi mynd af flaki Douglas-vélarinnar var birt á Facebook-síðunni Baklandi ferðaþjónustunnar í gær.
Þessi mynd af flaki Douglas-vélarinnar var birt á Facebook-síðunni Baklandi ferðaþjónustunnar í gær. Mynd/Facebook
„Það er alltaf eitthvað verið að krota og krassa á hana. Það er búið að kveikja í henni og gera allskonar kúnstir,“ segir Benedikt Bragason, ábúandi á Ytri-Sólheimum, um flak Douglas-vélarinnar á Sólheimasandi en búið er að mála stærðarinnar merki á vélina sem blasir við þeim ferðamönnum sem hana skoða um þessar mundir.

Mynd af merkingunni var birt á Facebook-síðu Baklands ferðaþjónustunnar.

Sjá einnig:Ofurfyrirsæta kveikti í Douglas-vélinni á Sólheimasandi

Benedikt segir ekki óalgengt að krotað sé á vélina en þessi merking sé með heldur stærra móti. „Okkur kemur þetta eiginlega bara ekkert við en þetta er leiðinlegt fyrir túristana sem skoða þetta. Draslaralegt fyrir þá. Annars er okkur alveg sama hvað er með þessa flugvél. En þetta er orðinn svolítið mikill áfangastaður í sveitinni þannig að það er leiðinlegt fyrir þær sakir,“ segir Benedikt.

Hann segir þessa merkingu eiga eftir að mást af með sandblæstri. „Það fer enginn af stað til að þrífa þetta.“

Sjá einnig:Republik segir að ekki hafi verið kveikt í Douglas-vélinni

Hann segir vélina kæra þeim sem þekkja sögu hennar. Vélin var af gerðinni Douglas Dakota DC-3 C 117 og í eigu Bandaríkjahers en hún brotlenti á Sólheimasandi árið 1977.

„Ég á vélina persónulega. Vélin lendir þarna á miðvikudegi og það vill þannig til að alla miðvikudaga þá á ég reka á fjöru. Þannig að vélin telst vera mín eign. Okkur þykir vænt um hana en ekkert er eilíft og það þýðir ekki að vera að pirra sig á öllu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×