Viðskipti innlent

Kjötið að klárast á Metro: „Við erum í algjörum vandræðum“

ingvar haraldsson skrifar
Jón Garðar Ögmundsson segir Metro í miklu vandræðum vegna verkfalla.
Jón Garðar Ögmundsson segir Metro í miklu vandræðum vegna verkfalla. vísir/gva
„Við erum í algjörum vandræðum. Það eru allir naggar búnir og ákveðnar tegundir á kjöti búnar. Það er ófremdarástand,“ segir Jón Garðar Ögmundsson, rekstrarstjóri Metro en hver varan á fætur annarri er að klárast vegna verkfalls dýralækna Matvælastofnunar.

Jón Garðar býst við því að tuttugu til þrjátíu prósent af vörulínuMetro hafi þegar dottið út af matseðli þar sem vörur séu uppseldar og fáist líklega ekki fyrr en verkfallið leysist.

Jón Garðar segir að þegar hafi ákveðnar stærðir af hamborgurum klárast, t.d. sé Metro hætt að selja ostborgara. Hann býst við að hamborgararnir sem til séu á lager dugi fram að næstu helgi.

„Ef við fáum ekki kjöt í næstu viku erum við bara að selja ís. En við reynum að redda okkur og erum með plan b og c í gangi en það fer að styttast í að humarsamlokan komi á matseðilinn hjá okkur,“ segir Jón Garðar.

Hann segir að framleitt hafi verið í frost áður en verkfall hófst en það sé að klárast. „Við reyndum að selja grísaborgara en það vakti ekki lukku þannig að var ekki áhugi að halda því,“ segir Jón Garðar.

Sjá einnig: Metro setur grísakjöt í Heimsborgarann vegna verkfalls

Rekstrarstjórinn segir ljóst að verkföll sem standa yfir auk boðaðra verkfalla í maí hafi haft veruleg áhrif á afkomu staðarins í maí. „Þegar hálf þjóðin er á leið í verkfall þá heldur fólk að sér höndum,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×