Íslenski boltinn

Ólafur: KR-ingar mjög slakir án boltans

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Jóhannesson lagði KR í kvöld.
Ólafur Jóhannesson lagði KR í kvöld. vísir/Stefán
"Það var mikið pláss fyrir aftan vörn KR og við nýttum okkur það," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, við Vísi um sigurinn á KR í kvöld.

Honum finnst lítið til KR-liðsins koma þegar það er ekki með boltann.

"Við ætluðum að verjast vel og vera þolinmóðir. Við vissum það, að KR finnst gaman að hafa boltann, en KR-ingum finnst ekki gaman í fótbolta þegar þeir eru ekki með boltann. Þá eru þeir mjög slakir," sagði Ólafur.

Ólafur er ánægður með frammistöðu Valsliðsins til þessa, en liðið er komið með ellefu stig og búið að vinna þrjá leiki í röð í deild og bikar.

"Við erum búnir að spila ágætis mót framan af. Við erum búnir að vinna þessa leiki og það er mjög gott. Það er samt mikið eftir," sagði hann.

"Það er skemmtilegra og betra að vinna. Það er góð liðsheild í Val og frábærir fótboltamenn," sagði Ólafur Jóhannesson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×