Enski boltinn

Skírði soninn LFC og Mac Allis­ter lét draum feðganna rætast

Sindri Sverrisson skrifar
Feðgarnir Lucho og Lihuen fengu draumaferð á Anfield.
Feðgarnir Lucho og Lihuen fengu draumaferð á Anfield. Premier League

Argentínsku feðgarnir Lucho og Lihuen fengu draum sinn uppfylltan og rúmlega það þegar þeim var boðið að mæta á Anfield að hitta hetjurnar sínar og sjá liðið sem þeir elska, Liverpool, spila.

Hjartnæmt myndband af aðdragandanum og heimsókn feðganna má sjá hér að neðan og mátti ekki á milli sjá hvor þeirra var spenntari. Til marks um ást pabbans á Liverpool, sem varað hefur í rúma fjóra áratugi, þá eru upphafsstafirnir í nafni sonarins LFC.

Klippa: Feðgar fengu draumaferð á Anfield

Feðgarnir ferðuðust 11.000 kílómetra frá Buenos Aires til Liverpool og á Anfield tók landi þeirra, heimsmeistarinn Alexis Mac Allister, á móti þeim. Mac Allister gekk með feðgana um svæði leikmanna og var Lihuen, sem er 10 ára, nánast fallinn í yfirlið þegar hann fékk að faðma sjálfan Mohamed Salah.

Lihuen fékk þó aðeins að sjá Salah spila seinni hálfleikinn, í 1-1 jafnteflinu við Sunderland þar sem Florian Wirtz sá til þess að Liverpool fengi þó alla vega eitt stig og feðgarnir gætu fagnað dátt einu marki. Þeir fengu sæti á besta stað á Anfield og fengu jafnframt að hitta fyrirliðann Virgil van Dijk að leik loknum.

Feðgarnir verða án efa með kveikt á sjónvarpinu á morgun þegar Liverpool sækir Tottenham heim í afar áhugaverðum leik í 17. umferð. Leikurinn hefst klukkan 17:30 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×