Innlent

TF-SIF liðsinnti við björgun 5000 flóttamanna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flóttamenn sem bjargað var fyrr í mánuðinum.
Flóttamenn sem bjargað var fyrr í mánuðinum. VÍSIR/AP
Rúmlega fimm þúsund flóttamönnum á leið sinni til Evrópu var bjargað á Miðjarðarhafi á dögunum. Björgunin, sem féll undir hina svokölluðu Triton-áætlun, var framkvæmd af fjölþjóðlegu liði evrópskra björgunarmanna, þeirra á meðal Íslendinga.

Flóttamönnunum sem bjargað var voru á leið sinni frá Líbíu um borð í 25 bátum þegar för þeirra var stöðvuð af skipum frá Ítalíu, Bretlandi, Möltu og Belgíu.

Þá nutu þau liðsinnis úr lofti frá íslenskum og finnskum flugvélum, er fram kemur á vef landamærastofnunar Evrópusambandsins (Frontex) en TF-Sif, eftirlitsflugvél landhelgisgæslunnar, hefur sinnt eftirliti á vegum stofnunarinnar við Miðjarðarhaf undanfarin misseri.

TF-SIFVÍSIR/VILELM
Þá fundust einnig lík 17 flóttamanna sem komið var á land í Sikiley þar sem reynt verður að bera kennsl á þau.

Flóttamennirnir fimm þúsund verða fluttir til Ítalíu þar sem þeir bætast í hóp þeirra rúmlega 40 þúsund flóttamanna sem komið hafa til landsins í ár.

Flestir þeirra eru að flýja glundroðann í Líbíu sem ríkt hefur allt frá því að einræðisherra landsins, Múammar Gaddafi, var steypt af stóli fyrir liðlega fjórum árum síðan.

Að sögn forstöðumanns Frontex, Fabrice Leggeri, er þetta stærsta einstaka björgun sem stofnunin hefur ráðist í á árinu.

Tríton-áætlun Frontex var komið á laggirnar í apríl síðastliðnum eftir að 800 flóttamenn drukknuðu undan ströndum Líbíu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×