Góðgerðafélag Verzlunarskóla Íslands gaf í gær 300 þúsund krónur til neyðarsöfnunar UNICEF fyrir börn í Nepal.
Góðgerðafélagið hafði safnað í heilt ár með ýmsum viðburðum, svo sem bingói, happdrætti og sölu á ýmsu dóti á skólaviðburðum. Þegar liðsmenn í ráðinu sáu fréttir af skelfingarástandinu í Nepal gerðu þeir sér grein fyrir því að þarna þyrfti að hjálpa til. Var því ákveðið að leggja 300 þúsund krónur til neyðarhjálpar UNICEF.
Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi, segir UNICEF vera nemendunum ótrúlega þakklát.
„Neyðin í Nepal er gríðarleg eftir tvo stóra jarðskjálfta og marga minni eftirskjálfta og framlag Verzlinga mun virkilega koma að gagni. Þau munu meðal annars fara í að útvega hreint vatn og hreinlætisgögn, neyðarskýli, nauðsynleg lyf og sálrænan stuðning fyrir börn sem hafa upplifað alltof mikið. UNICEF hefur þegar hjálpað ótal börnum á skjálftasvæðinu og framtak eins og þetta hjá nemendunum í Verzló gerir okkur kleift að gera enn þá meira,“ segir Sigríður.
Verzlingarnir Helga Lára Guðmundsdóttir og Svava H. Johannessen afhentu upphæðina fyrir hönd Góðgerðafélags skólans.
Skjálftarnir í Nepal: Verzlingar gáfu 300 þúsund til neyðarsöfnunar UNICEF
Atli Ísleifsson skrifar
