Íslenski boltinn

FH bæði stigalaust og markalaust í fyrsta sinn í þrjú ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Lennon í leik FH og Vals í gær.
Steven Lennon í leik FH og Vals í gær. Vísir/Stefán
FH-ingar töpuðu 2-0 á móti Val í gær en það var liðinn langur tími síðan að Hafnarfjarðarliðið uppskar jafnlítið út úr leik í Pepsi-deildinni í fótbolta.

FH-ingar voru fyrir leikinn búnir að spila 63 leiki í röð í Pepsi-deildinni þar sem liðið fékk annaðhvort stig eða skoraði mark.

Síðasta liðið til að halda FH-ingum á núllinu í bæði mörkum og stigum voru KR-ingar þegar Vesturbæjarliðið vann 2-0 sigur á FH 23. maí 2012.

FH-liðið hafði ennfremur skorað í 31 leik í röð í Pepsi-deildinni eða síðan að Gunnleifur Gunnleifsson hélt hreinu á móti sínum gömlu félögum í markalausu jafntefli 11. ágúst 2013.

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, fann hinsvegar leiðir til að loka á sína gömlu lærisveina á Vodafone-vellinum í gær því Valsmenn voru miklu betri í leiknum og unnu sannfærandi sigur.

Heimir Guðjónsson tók við FH-liðinu af Ólafi fyrir sumarið 2008 og var að stýra liðinu í 157. sinn í efstu deild í gær. Þetta var hinsvegar aðeins í tíunda sinn í þessum 157 leikjum sem FH-liðið er bæði stigalaust og markalaust.


Tengdar fréttir

Valsmenn sungu um að deyja fyrir klúbbinn | Myndband

Valsmenn voru harðlega gagnrýndir eftir slæmt tap á móti nýliðum Leiknis í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar en þeir sýndu styrk sinn í sigri á Íslandsmeistaraefnunum úr FH í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×