Ólafur Þórðarson var í frábæru spjalli í Akraborginni hjá Hirti Hjartarsyni í dag.
Skagamennirnir Hjörtur og Ólafur fóru um víðan völl í spjalli sínu í dag og Ólafur lá ekki á góðum sögum frekar en fyrri daginn.
Hann talaði meðal annars um samskipti sín við föður sinn en pabbinn var frekar spar á hrósið í garð sonarins.
„Maður horfði á verðlaunapeninga upp á vegg hjá pabba þegar maður var yngri og gullöld í gangi hjá Skaganum. Það voru miklar sögur af þeirra hetjudáðum. Seinna meir fór ég að kynda pabba er við höfðum unnið fimm ár í röð. Sagði við að hann að það hefði ekki verið nein gullöld í gamla daga. Hún væri núna," sagði Ólafur léttur er hann rifjar upp gullaldartímabil Skagans er hann var í liðinu.
„Pabbi sagði að við værum aumingjar. Ég gat ekkert fótbolta að hans mati. Ég held að hann hafi hrósað mér í fyrsta skipti eftir U-21 árs leik er við unnum Spánverja. Hrósið fólst í því að hann sagði að ég hefði ekki verið eins slakur og hinir. Það fannst mér vera hrós," segir Ólafur en faðir hans var á móti þessu sprikli í honum.
„Hann var alltaf að reyna að fá mig til að hætta. Honum vantaði mig nefnilega í vinnuna. Ég fékk ekki mikla hvatningu þar. Ég var alltaf staðráðinn samt í því að spila fleiri leiki en hann og verða betri en hann var.
Ólafur segir að hann sé ekki sami maðurinn á vellinum og hann er utan hans. Það sé stórmunur á því.
„Er kolvitlaus út á velli en fyrir utan það er ég algjört ljúfmenni," sagði Ólafur og hló dátt.
Hlusta má á stórskemmtilegt spjall Skagamannanna í spilaranum hér að ofan.

