Yfirvöld í Bretlandi telja að tveir sautján ára drengir hafi farið til Sýrlands. Fjölskyldur þeirra hafa ekki séð þá síðan á 31. mars, en talið er að þeir hafi flogið frá Manchester til Tyrklands þann dag. Talið er að um 600 Bretar hafi farið til Sýrlands til að ganga til liðs við uppreisnarhópa og hryðjuverkasamtök.
Um helmingur þeirra er sagður hafa snúið aftur heim.
Ekki er vitað hvað drengirnir ætla sér í Sýrlandi en talsmaður lögreglunar sagði í samtali við Sky News að þeir legðu áherslu á að koma þeim aftur heim heilu og höldnu. „Fjölskyldur þeirra hafa miklar áhyggjur af þeim og vilja fá þá aftur heim,“ segir Mark Milsom.
Hann sagði að Sýrland væri einstaklega hættulegur staður og að líkur væru á því að drengirnir fái ekki að snúa heim, lendi þeir í höndum ISIS eða annarra uppreisnarhópa.
